Hér má sjá kynningar á þeim frambjóðendum sem hafa gefið kost á sér í röðun og sent inn kynningarbréf.
Ólafur Adolfsson – 1. sæti
Fjölskylda
Ólafur Adolfsson er fæddur 18. október 1967 og er í sambúð með Margréti Birgisdóttur lyfjafræðingi. Faðir Adolf Steinsson lögreglumaður í Ólafsvík, móðir Álfheiður Þórðardóttir bankastarfsmaður. Bæði látin. Bróðir Steinar Adolfsson, bæjarritari hjá Akraneskaupstað. Börn Svandís Erla og Arnar Steinn og tvö barnabörn
Menntun
Grunnskóli Ólafsvíkur (1983), Menntaskólinn á Akureyri (1987), Cand Pharm frá HÍ (1993).
Störf
Ólafur hóf störf í fiskvinnslu 12 ára og vann ýmis störf samhliða skólagöngu. Eftir útskrift úr HÍ starfaði Ólafur við kennslu og rannsóknir við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, yfirlyfjafræðingur í Akraness Apóteki og Sauðárkróksapóteki, lyfsali í Apótekinu Iðufelli, sölu- og markaðsstjóri hjá alþjóðlegu lyfjafyrirtæki.
Ólafur hóf rekstur á Apótek Vesturlands á Akranesi í júní árið 2007 og hefur síðan bætt við lyfjabúðum, Reykjavíkur Apótek 2009, Apótek Vesturlands Snæfellsbæ 2020, Apótek Vesturlands Borgarnesi 2022.
Afreksíþróttir
Ólafur spilaði knattspyrnu með síðara Gullaldarliði ÍA sem vann það afrek að sigra efstu deild í knattspyrnu 5 ár í röð (1992-1996). Ólafur hefur spilað 21 landsleik fyrir Ísland.
Trúnaðarstörf
Ólafur hefur gengt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í gegnum tíðina og situr í miðstjórn flokksins. Oddviti Sjálfstæðismanna í hreinum meirihluta í bæjarstjórn Akraness 2014-2018 og sæti í minnihluta bæjarstjórnar 2018-2022. Stjórnarformaður Þróunarfélagsins á Grundartanga fyrir hönd Akraneskaupstaðar.
Teitur Björn Einarsson – 1. sæti
Ég býð mig fram til að leiða lista Sjálfstæðiflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að leggja til að þing verði rofið og þar með boðað til alþingiskosninga var hárrétt. Kyrrstaða í málum sem eru jafn mikilvæg framtíð þjóðarinnar og raun ber vitni er óásættanleg.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð verulegum árangri síðustu ár þrátt fyrir krefjandi ríkisstjórnarsamstarf og sögulegar áskoranir og getur því stoltur lagt verk sín í dóm kjósenda. Hins vegar horfum við nú fram á breyttar áskoranir sem snúast fyrst og fremst um framtíðina og hvernig við gerum fólki best kleift að nýta tækifærin til að skapa sér og sínum gott líf um land allt.
Frá því ég tók sæti á Alþingi fyrir einu og hálfu ári síðan hef ég barist fyrir hagsmunum íbúa Norðvesturkjördæmis. Áskoranirnar eru fjölmargar og ólíkar, en ég tel einsýnt að áframhaldandi sókn í atvinnuuppbyggingu sé forsenda aukinnar velferðar og bættra lífskjara fólksins á svæðinu. Það er leiðin fram á við.
Ég hef fullan hug á að halda áfram að berjast fyrir bættum hag fólksins í Norðvesturkjördæmi og óska því eftir stuðningi Sjálfstæðismanna í 1. sæti á lista flokksins á kjördæmaráðsþingi á sunnudaginn.
Björn Bjarki Þorsteinsson – 2. sæti
Kæru vinir,
Að vandlega íhuguðu máli hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti á framboðslista
Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar sem fram fara þann 30.
nóvember 2024.
Frá unga aldri hef ég tekið þátt í pólitísku starfi en aldrei hef ég setið á framboðslista í
Alþingiskosningum. Ég var oddviti Sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Borgarbyggðar í 12 ár og í 16
ár sat ég samfellt í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Ég taldi að ég væri hættur afskiptum af
sveitarstjórnarmálum og í raun pólitík en í júlí 2022 bauðst mér starf sveitarstjóra í Dalabyggð og
það skemmtilega starf og þau verkefni sem ég hef tekist á við í Dölunum hafa kveikt þann neista í
huga mér að ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti framboðslista D-listans í kjördæminu
víðfeðma.
Það hefur verið afar gefandi og skemmtilegt að fá að taka þátt í þeirri vinnu sem við höfum verið í
undanfarin rúmlega tvö ár í Dölunum. Kraftur og samkennd einkennir samfélagið og hef ég reynt
eftir fremsta megni að vekja athygli á þeim innviðum sem þarfnast úrbóta við í Dölunum og í raun
út um allt land í samstarfi og samráði við mína umbjóðendur. Ég tel mig ekki vera að hlaupast frá
borði með því að gefa kost á mér til setu á Alþingi og mögulega yfirgefa mitt góða starf því á Alþingi
gefast tækifæri til að láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins áfram en í víðari mynd með því að
hafa kjördæmið og í raun landið allt undir.
Mitt leiðarstef ef ég nýt stuðnings til að skipa 2. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í
Norðvesturkjördæmi mun fyrst og síðast snúa að aðstæðum okkar íbúa kjördæmisins alls og
hvernig lífsskilyrði við viljum búa við og hvernig við búum að atvinnulífinu. Þar kemur megin inntak
og grunnstef Sjálfstæðisstefnunnar sterkt inn í mínum huga, stétt með stétt, og frelsi einstaklings
til athafna, þann kjarna þurfum við að nálgast í störfum okkar, þau okkar sem mögulega veljast til
setu á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins út um land allt.
Kjördæmið er bæði víðfeðmt og atvinnulíf fjölbreytt, staða bænda stendur mér nærri nú eftir að
ég hóf störf í Dalabyggð sem er ein af matarkistum landsins ef svo má segja, líkt og mörg önnur
svæði innan kjördæmisins, við þurfum að ná fram ásættanlegum lífsskilyrðum fyrir þá sem í þeirri
grein starfa líkt og í öðrum atvinnugreinum.
Efnahagsmál og hvernig haldið er á þeim skipta gríðarlega miklu máli og að mínu mati eru
gríðarleg tækifæri til þess að nýta fjármuni með skilvirkari hætti en nú er gert í ríkisrekstrinum.
Einnig er mitt hjartans mál allir dýrmætu innviðirnir okkar og skiptir þá engu hvar borið er niður
fæti, í heilbrigðismálum, vegamálum, menntamálum, raforkumálum, umhverfismálum og áfram
mætti telja, allt þetta skiptir gríðarlegu miklu máli og það er svo sannarlega verk að vinna til að
bæta aðbúnað, í kjördæminu öllu, sama í hvaða horni er.
Ég mun leggja mig fram um að verða þingmaður kjördæmisins alls, hlusta eftir sjónarmiðum íbúa,
atvinnulífs, sveitarstjórna og allra annarra hagsmunaaðila því í mínum huga er þingmannsstarfið
fyrst og síðast þjónustuhlutverk í þágu skattgreiðenda og landsmanna allra.
Kæru vinir, það er verk að vinna !
G. Sigríður Ágústsdóttir – 2. sæti
Ég, Sigríður Ágústsdóttir, býð mig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðurvesturkjördæmi í komandi kosningum.
Ég er 50 ára og frá Bíldudal í Arnarfirði og er þar mikið.
Pabbi kvaddi nýlega en mamma býr enn ein á Bíldudal. Það er oft krefjandi að vera foreldrum sínum innan handar svo langt í burtu. En ég vil skapa samfélag þar sem fólk getur sótt nauðsynlega þjónustu í sinni heimabyggð og alið sinn aldur innan um kunningja, vini og ástvini. Heilbrigðismál eru mér því sérstaklega hjartfólgin, það er grundvallaratriði að allir landsmenn hafi aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu.
Góðar samgöngur eru grunnréttindi á landsbyggðinni.
Ég hef mikla reynslu úr atvinnulífinu. Ég er menntaður matreiðslumaður og hef mestmegnis starfað sem sölumaður. Sterkar atvinnugreinar eru að mínu mati forsenda öflugs velferðarkerfis sem tryggir lífsgæði fyrir alla.
Fyrr á þessu ári tók ég sæti á Alþingi sem varaþingmaður og lagði á stuttum tíma fram mikilvæga þingsályktun um einkarekið hjúkrunarheimili á Vestfjörðum, og beindi fyrirspurnum til heilbrigðisráðherra um velferðarmál á landsbyggðinni og heilbrigðismál eldri borgara. Þetta eru helstu ástæður þess að ég ætti að vera á hraðri leið inná þing.
Ég stefni líka á að vera alltaf með frábært hár.
Auður Kjartansdóttir – 3. sæti
Ég, undirrituð gef kost á mér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir
komandi kosningar 30. nóvember 2024.
Ég er lögfræðingur og hef starfað sem fjármálastjóri hjá Fiskmarkaði Íslands í 8 ár. Ég er gift Pétri
Péturssyni, skipstjóra og útgerðarmanni hjá Bárði SH81. Saman eigum við 3 börn, og erum
búsett í Snæfellsbæ.
Ég tel mig hafa mikið erindi í þetta verkefni og er tilbúin að leggja mitt af mörkum. Ég brenn fyrir
málefnum samfélagsins og langar að hafa áhrif á nýjum vettvangi. Ég hef setið í meirihluta í
bæjarstjórn Snæfellsbæjar í rúm 6 ár fyrir Sjálfstæðisflokkinn, er stjórnarformaður Brúar
lífeyrissjóðs og sit í stjórn Landsamtaka lífeyrissjóða.
Það eru miklar áskoranir framundan, þar má helst nefna verkefnin í mennta- og
heilbrigðismálum. Það þarf að halda áfram að sýna aðhald í ríkisfjármálum og tryggja þannig að
verðbólga og vextir haldi áfram að lækka. Við þurfum að tryggja að Ísland verði það land sem við
unga fólkið veljum til að byggja upp okkar líf og feril, ekki síst á landsbyggðinni. En þá þarf að
tryggja að allir innviðir séu eins og þeir eigi að vera og það eru sannarlega tækifæri í þeim efnum
víða í okkar víðfeðma og fjölbreytta kjördæmi.
Auður Kjartansdóttir
Dagný Finnbjörnsdóttir – 4. sæti
Ég gef kost á mér í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins i norðvestur kjördæmi. Þau málefni sem ég brenn fyrir eru aðgengi og þátttaka ungmenna í íþrótta- og tómstundastarfi, forvarnarmál, lýðheilsa ungmenna, menning og mýsköpun. Jafnframt eru samgöngumál í kjördæminu mér ofarlega í huga en hér þarf að fara í átak til að heilsárstengja atvinnusvæði. Við á landsbyggðinni þurfum að sækja ýmsa þjónustu á höfuðborgarsvæðið, börnin okkar keyra allt árið um kring, helgi eftir helgi til að keppa í íþróttum. Því eru öruggar samgöngur okkur gífurlega mikilvægar.
Ég er fædd og uppalin í Hnífsdal og bý þar með eiginmanni mínum Ómari Erni Sigmundssyni og börnunum okkar þremur þeim Óskari Ingimari, Hinrik Elí og Ester Elísabet.
Eg er með B.ed. gráðu í kennarafræðum frá Háskólanum á Akureyri 2020 og árið 2023 lauk ég meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Ég er einnig menntaður snyrtifræðimeistari, útskrifaðist úr snyrtiskóla kópavogs árið 2006. Ég hef starfað sem kvenfélagskona frá 19 ára aldir og starfað í stjórn og sem formaður félagsins. Einnig er ég virkur félagi í björgunarsveitinni Tindum í Hnífsdal.
Í dag starfa ég sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi hjá Ísafjarðarbæ og er vara bæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ.