Elísabet Ingunn Einarsdóttir

Ég heiti Elísabet Ingunn Einarsdóttir og ég býð mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi og sækist eftir 2. sæti. Ég tel að reynsla mín úr atvinnulífinu, stefnumótun og stjórnarstörfum geti nýst vel í störfum fyrir sveitarfélagið, þar sem gerðar eru kröfur um ábyrga fjármálastjórn, skýra forgangsröðun og langtímahugsun. 

Síðastliðin 16 ár hef ég starfað sem framkvæmdastjóri einnar stærstu lögmannsstofu landsins sem einnig er með skrifstofur í Bretlandi og Frakklandi. Í því starfi öðlaðist ég  dýrmæta reynslu af því að vinna í flóknu rekstrarumhverfi, taka ákvarðanir til lengri tíma og tryggja stöðugleika og árangur. Ég hef jafnframt tekið þátt í stjórnarstörfum félaga og setið í stjórn Viðskiptaráðs Íslands, sem veitti mér góða innsýn í efnahagsmál og samspil atvinnulífs og hins opinbera. Í dag starfa ég í eigin rekstri og uppbyggingu verkefna, sem gefur mér nú svigrúm til að verja tíma og krafti í sveitarstjórnarmál sem ég hef brennandi áhuga á.  

Ég hef búið á Seltjarnarnesi í 10 ár og á tvö börn sem hafa notið hér þjónustu í skóla- og frístundastarfi. Ég hef tekið virkan þátt í skólasamfélaginu, meðal annars sem formaður foreldrafélags Grunnskóla Seltjarnarness og fulltrúi foreldra í skólanefnd, sem gaf mér góða innsýn í mikilvægi sterkrar og sjálfbærrar grunnþjónustu. 

Ég býð fram reynslu mína og þekkingu með það að markmiði að stuðla að traustum rekstri, vandaðri þjónustu og skýrri framtíðarsýn fyrir Seltjarnarnes.