Elín María Jónsdóttir

Ég býð mig fram í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fer fram 31. janúar 2026.

Ég er gift Guðmundi Erni Kjærnested og eigum við fjögur börn á aldrinum 8–16 ára. Ég hef búið í Mosfellsbæ meirihluta fullorðinsára minna og er afar þakklát fyrir að hafa fengið að ala börnin mín upp í þessu góða samfélagi.

Fyrir um 14 árum tók ég þá ákvörðun að vera heimavinnandi á meðan börnin voru ung. Samhliða því hef ég tekið virkan þátt í foreldrastarfi, bæði í leik- og grunnskólum bæjarins. Ég hef setið í stjórnum foreldrafélaga, verið formaður Sammos – Samtaka foreldrafélaga grunnskóla Mosfellsbæjar og setið í stjórn Heimila og skóla. Sú reynsla hefur veitt mér dýrmæta innsýn í starfsemi sveitarfélagsins, styrkleika þess og þau tækifæri til að gera betur.

Á yfirstandandi kjörtímabili hef ég verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fræðslunefnd og setið í stjórn sjálfstæðisfélagsins. Það hefur verið afar gefandi og styrkt vilja minn til að halda áfram að vinna í þágu bæjarbúa og efla bæinn enn frekar.

Ég vil áfram leggja mitt af mörkum til uppbyggingar Mosfellsbæjar, bæta þjónustu, styrkja innviði og standa vörð um þau gildi sem gera Mosfellsbæ að eftirsóknarverðum stað til að búa á og starfa í.