Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 4.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði fyrir komandi sveitastjórnarkosningar.
Ég er 27 ára og bý með kærustu minni Freyju Húnfjörð og frumburði okkar, Jósep Óttari, í Norðurbænum.
Ég er uppalinn í Hafnarfirði, gekk í Áslands- og Flensborgarskóla. Áhugamálin eru mörg en íþróttir og tónlist eru þar á meðal, ég æfði handbolta og fótbolta með Haukum og var í Kór Flensborgarskólans.
Ég nam hagfræði við Háskóla Íslands og starfaði samhliða námi á leikskólanum Tjarnarás í Hafnarfirði, auk sumarstarfa hjá Landsbankanum. Að námi loknu hóf ég störf hjá &Pálsson sem sinna fjármála- og rekstrarráðgjöf þar sem ég starfa í dag. Haustið 2023 flutti ég til Stokkhólms og hóf nám í Stockholms universitet þaðan sem ég útskrifaðist með meistaragráðu í Banking & Finance árið 2025.
Mér er annt um Hafnarfjörð, ég vil taka þátt í að móta samfélagið okkar og láta gott af mér leiða. Heiðarleiki, hreinskilni og ábyrgð eru gildi sem ég legg áherslu á og tel mikilvægt að séu höfð að leiðarljósi. Ég legg einnig áherslu á að ákvarðanir séu teknar af skynsemi með langtímahagsmuni og sjálfbærni í huga en heilbrigð fjárhagsmál er grundvöllur árangurs til lengri tíma.
