Bylgja Bára Bragadóttir

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ vegna þess að mér þykir vænt um samfélagið okkar og vil taka virkan þátt í að móta framtíð bæjarins. Mosfellsbær stendur á tímamótum þar sem þörf er á skýrri sýn, ábyrgri forystu og samvinnu um næstu skref.

Ég hef starfað sem stjórnandi í nær tuttugu ár og lagt áherslu á fagmennsku, traust og mannleg samskipti. Sem menntaður stjórnendamarkþjálfi trúi ég því að góð forysta snúist ekki aðeins um ákvarðanir, heldur að hlusta, leiða fólk saman og byggja brýr milli ólíkra sjónarmiða. Sú nálgun hefur verið leiðarljós í störfum mínum, bæði í atvinnulífi og í trúnaðarstörfum.

Rætur mínar liggja í minni samfélögum þar sem samheldni og ábyrgð skipta sköpum. Með það að leiðarljósi vil ég vinna að sveitarfélagi sem sér íbúa sína, byggir ákvarðanir á trausti og vinnur markvisst að bættum lífsgæðum.

Ég vil leggja mitt af mörkum til að Mosfellsbær verði áfram fjölskylduvænn bær þar sem velferð og heilsa eru höfð að leiðarljósi í allri stefnumótun til framtíðar fyrir íbúa bæjarins á öllum skeiðum lífsins með ábyrgri, lýðræðislegri og mannlegri forystu.

Ég er gift Rúnari Braga og saman eigum við tvö uppkomin börn. Frekari upplýsingar um mig má finna á heimasíðu minni www.bylgjabara.is

Mosfellsbær á skilið forystu sem hlustar, sameinar og skilar ábyrgum niðurstöðum til framtíðar.