

Brynja Hlíf Hjaltadóttir gefur kost á sér í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fer fram 31. janúar næstkomandi.
Ég er 27 ára og bý í Leirvogstungu ásamt Agli Ara og syni okkar. Ég er fædd og uppalin í Mosfellsbæ og hef búið þar nánast alla mína tíð. Ég hef verið í leik-, grunn- og framhaldsskóla í Mosfellsbæ, æft með Aftureldingu, stundað akstursíþróttir í Motomos og verið kjörin íþróttakona Mosfellsbæjar.
Ég er varabæjarfulltrúi og aðalmaður í velferðarnefnd. Ég hef áður verið í atvinnu- og nýsköpunarnefnd og lýðræðis- og mannréttindanefnd. Ég er lögfræðingur að mennt með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum og starfa á því sviði. Auk þess hef ég mikið starfað með börnum og unglingum í Mosfellsbæ.
Mosfellsbær á stóran stað í hjarta mínu og býð ég fram krafta mína til þess að halda áfram að bæta bæjarfélagið okkar, stuðla að því að öllum hópum samfélagsins vegni vel og að Mosfellsbær sé öllum aðgengilegur. Þá eru málefni barna mér ofarlega í huga og mun ég leggja mitt af mörkum til þess að tryggja velferð þeirra.
Ég er ótrúlega spennt fyrir komandi kjörtímabili og er tilbúin að leggja allt mitt af mörkum til að gera bæinn okkar enn betri.