Allsherjar- og menntamálanefnd

Menntun, vísindi og tækni

Almennt um menntamál: Menntun er grundvöllur hagsældar landsmanna. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á fjölbreytt og jöfn tækifæri til menntunar og að auk opinbers rekstrar séu kostir einstaklingsframtaksins nýttir með öflugum sjálfstætt starfandi skólum og nýsköpun á sem flestum sviðum. Fjármagn ætti að fylgja hverjum nemanda, óháð rekstrarformi skóla, og endurspegla þannig ólíkar þarfir hvers og eins nemanda og mismunandi námsgreina. Fjarnám hefur sannað gildi sitt á síðustu árum og ætti að nýta reynslu af því vel til að efla það frekar. Meta þarf reglulega færniþörf á vinnumarkaði svo ungmenni geti tímanlega tekið upplýstar ákvarðanir þegar þau velja sér nám.

Leikskóli: Brúa þarf umönnunarbil milli fæðingarlofs og leikskóla með því að sveitarfélög tryggi öllum börnum leikskólapláss, eða annað úrræði, um leið og fæðingarorlofi lýkur. Um er að ræða mikilvægt jafnréttismál, enda sýna rannsóknir að það lendi frekar á mæðrum að brúa bilið.

Grunnskóli: Skoða ætti að fækka skólaárum í níu með lengingu skólaársins þannig að ungmenni útskrifist að jafnaði úr framhaldsskóla 18 ára, eins og tíðkast í flestum löndum í kringum okkur. Löng sumarfrí hafa slæm áhrif á námsárangur, einkum þeirra sem standa höllum fæti. Skólastarfið þarf að miða meira að þörfum hvers nemanda þannig að hann  nái árangri á sínum forsendum. Sérstaklega þarf að huga að börnum með erlent móðurmál og drengjum, sem standa höllum fæti samkvæmt rannsóknum og alþjóðlegum samanburði. Endurskoða, skýra og nútímavæða þarf aðalnámskrá, ekki síst í ljósi aukins fjölda grunnskólanema með erlent móðurmál. Læsi grunnskólabarna er vaxandi áhyggjuefni sem þarfnast tafarlausra aðgerða. Auka þarf fjölbreytni og afnema ríkiseinokun á útgáfu námsbóka. Huga þarf sérstaklega að útgáfu lesefnis í því samhengi. Efla þarf kyn- og fötlunarfræðslu. Grunnskólar þurfa að leggja aukna áherslu á list- og verkgreinar til að búa nemendum betri grunn fyrir nám á þeim sviðum á framhaldsskólastigi.

Framhaldsskóli: Stytting framhaldsskólans var rétt skref sem hefur þegar minnkað brotthvarf og mun til lengri tíma hækka ævitekjur landsmanna og auka árangur skólastigsins. Auka þarf sveigjanleika og aðlögunarhæfni framhaldsskólastigsins til að mæta þörfum samfélagsins. Þriðjungur þeirra sem sóttu um að komast í Tækniskólann  var vísað frá á sama tíma og mikil þörf er á iðnmenntuðum í atvinnulífinu. Skólakerfið þarf að vera betur í stakk búið til að taka á móti auknum fjölda nemenda. Þverfaglega nálgun þarf til að taka á brotthvarfi og skólaforðun.  Innleiða þarf stefnu, forvarnar- og aðgerðaráætlun vegna eineltis, kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og ofbeldi í framhaldsskólum.

Háskóli og vísindi: Endurskoða þarf fjármögnun háskólastigsins í heild sinni, þ.e.a.s. fjármögnunarlíkan kennslu og rannsókna og námslánakerfi. Beita þarf fjármögnun háskólanna markvisst til þess að efla gæði náms, kennslu og rannsókna um land allt, auk þess að hvetja til aukins samstarfs og sérhæfingu einstakra háskóla og gera þá í stakk búna að aðlaga námsúrval að þörfum samfélagsins. Alþjóðlegt samstarf á háskólastigi eflir íslenska háskóla. Auka ætti námsframboð á ensku til að laða að hæfileikaríkt fólk í nám og kennslu og gera háskólamenntun að útflutningsgrein. Fjölga á valkostum og framboði á styttri námsleiðum t.d. á fagháskólastigi. Taka ætti upp aðgangsstýringu að norrænni fyrirmynd til að tryggja að tíma nemenda og skólanna sé betur varið. Ísland er eitt fárra Evrópuríkja án slíkrar stýringar. Skoða ætti skólastigið í heild og kanna hvar tækifæri eru til aukins einkarekstrar, samstarfs og sameiningar, nemendum og vísindum til heilla, og styrkja stofnanir á landsbyggðinni. Vísindi eru hornsteinn þróaðra samfélaga. Huga þarf betur að núverandi og framtíðarþörfum atvinnulífsins fyrir starfsfólk þegar kemur að menntamálum. Auka þarf framboð á menntun og fræðslu á háskólastigi fyrir fötluð ungmenni.

Framhaldsfræðsla og tækni: Styrkja þarf framhaldsfræðslu sem fimmtu stoð menntakerfisins. Tæknibreytingar eru að verða til þess að störf hverfa og önnur myndast þar sem reynir fyrst og fremst á stafræna færni. Framhaldsfræðsla og nám á vinnustöðum mun spila lykilhlutverk í að aðstoða fólk, sem hefur þegar lokið skólagöngu, við að öðlast færni sem það þarf á að halda á breyttum vinnumarkaði. Einnig þarf að huga að menntun eldra fólks sem fer fjölgandi á vinnumarkaði. Efla þarf íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þar spila atvinnurekendur lykilhlutverk í að styðja við starfsfólk sitt.

Menntasjóður námsmanna: Bæta þarf úr verulegum annmörkum sem eru á nýlegum lögum um Menntasjóð námsmanna sem munu að óbreyttu leiða til aukinnar óvissu og óskilvirkni í rekstri sjóðsins.

Kennaranám: Verulega dró úr aðsókn í kennaranám í kjölfar lengingar þess án þess að sýnt hafi verið fram á að það skili sér í betra námi fyrir nemendur. Gera þarf námið fjölbreyttara, hagnýtara og eftirsóknarverðara. Skoða þarf möguleika á að stytta bóklegt nám og fjölga körlum í greininni. Sjálfstætt starfandi háskólar ættu að fá tækifæri til að bjóða upp á kennaranám.

Fjölmiðlar, menning og íþróttir

Fjölmiðlar: Öflugir fjölmiðlar gegna lykilhlutverki, ekki síst á tímum samfélagsmiðla og falsfrétta. Það voru mistök að breyta RÚV úr ríkisstofnun í opinbert hlutafélag sem ætti að vinda ofan af. Umfang RÚV á auglýsingamarkaði og samkeppni við stór erlend tæknifyrirtæki, sem búa við mun hagstæðara skattaumhverfi, hafa haft verulega slæm áhrif á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. RÚV á að fara af auglýsingamarkaði og bæta þarf skattaumhverfi fjölmiðla. Þannig verður styrkari stoðum rennt undir tilvist einkarekinna fjölmiðla í stað beinna ríkisstyrkja.

Menning: Tryggja þarf áframhaldandi grósku í íslensku menningarlífi um allt land sem auðgar lífið og hefur jákvæð hagræn áhrif. Endurskoða þarf starfs- og heiðurslaunakerfi listamanna þannig að það sé sanngjarnt, hvetjandi, ýti undir grósku í menningarstarfi og styðji við upprennandi listafólk. Hlúa þarf vel að skapandi greinum sem fela í sér mikil tækifæri. Lækkun á skattlagningu höfundaréttargreiðslna, sem ráðist var í að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins, er liður í að hlúa að skapandi greinum. Vinna þarf að varðveislu íslenskrar tungu í nútímasamfélagi með því að vinna áfram af fullum krafti að máltækni. Auka þarf aðgengi að hljóð- og rafbókum á íslensku fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi.

Íþróttir: Viðhalda þarf öflugu íþróttastarfi í landinu með eflingu íþróttahéraða til að auka framboð og efla samþættingu á þjónustu og faglegt starf í nærumhverfinu. Styðja þarf við íþróttir á öllum stigum og æviskeiðum enda hefur skipulagt íþrótta- og tómstundastarf mikið forvarnagildi. Veita þarf iðkendum og sjálfboðaliðum hvatningu og stuðning til þátttöku. Auka þarf samfellu í skóla- og tómstundastarfi og horfa til sveigjanleika í skólastarfi með rafrænu námi sem getur farið fram hvar sem er. Bæta þarf möguleika almennings til heilsuræktar. Áhersla verði á lýðheilsu með góðri aðstöðu fyrir almenningsíþróttir. Viðurkenna þarf stöðu jaðaríþrótta, eins og rafíþrótta, meðal annarra íþróttagreina. Afnema ætti bann við bardagaíþróttum.

Dóms- og löggæslumál

Löggæslumál: Bregðast þarf við undirmönnun lögreglunnar, sérstaklega á landsbyggðinni.  Refsistefna í fíkniefnamálum hefur ekki virkað og því þarf að fara aðrar leiðir. Neysla fíkniefna og varsla neysluskammta ætti ekki að vera refsiverð. Fíkn er heilbrigðismál, en ekki löggæslumál. Leggja ætti áherslu á að einstaklingar sem glíma við fíknivanda fái heilbrigðisþjónustu við hæfi svo sem í samræmi við hugmyndafræði skaðaminnkunar. Á sama tíma þarf að tryggja forvarnir, fræðslu og aðstoð vegna eiturlyfjafíknar.

Almannavarnir: Verulega reyndi á almannavarnir í heimsfaraldrinum. Ljóst er að innviðir stóðust prófið. Nýta ætti þessa reynslu til að fara í gegnum fyrirkomulag almannavarna, sóttvarna, lokunar landamæra og öryggismála almennt og ganga úr skugga um að það sé eins og best verður á kosið. Alþingi á að taka ákvarðanir um sóttvarnarráðstafanir og lokun landamæra. Hafa þarf í huga að slíkt getur bjargað mannslífum, en um leið skert mannréttindi og frelsi og kippt fótunum undan lífsviðurværi fólks. Gæta þarf að öllu þessu þegar ákvarðanir um þessi mál eru teknar.

Fangar og ósakhæft fólk: Efla þarf betrunarhlutverk fangelsa með auknu aðgengi að námi, atvinnu og heilbrigðisþjónustu og bættri þjónustu við fanga sem glíma við fíknivanda og geðsjúkdóma. Einnig þarf að bæta aðstöðu óskakhæfs fólks og geðheilbrigðisþjónustu við það.

Kynbundið ofbeldi: Kynbundið ofbeldi er alvarlegt samfélagsmein sem þarf að taka á af fullum þunga. Leggja þarf áherslu á að stytta ferli réttarvörslukerfisins þegar kemur að slíkum málum og tryggja að til staðar séu úrræði fyrir þolendur og gerendur. Einnig þarf að huga að því hvernig skólakerfið getur lagt sitt af mörkum þegar kemur að fræðslu um þessi mál.

Hatursáróður- og glæpir: Skýr löggjöf verður að vera til staðar til að sporna við hatursáróðri- og glæpum gegn fólki í viðkvæmri stöðu, svo sem hinsegin fólki og innflytjendum.

Dómstólar: Skipun dómara á að vera gagnsætt ferli byggt á heildstæðu hæfnismati ásamt öðrum sjónarmiðum sem líta þarf til við skipan dómstóls hverju sinni, eins og fjölbreytileika. Skipan dómara á að vera í höndum ráðherra, sem hefur til þess lýðræðislegt umboð, en ekki embættismanna eða nefnda sem enga ábyrgð bera á stjórnarathöfnum. Stefna á að sameiningu héraðsdómsstólanna til að auka skilvirkni réttarkerfisins og efla starfsstöðvar dómstólanna á landsbyggðunum.

Veðmálastarfsemi: Gefa þarf innlenda veðmálastarfsemi frjálsa svo hún standi jafnfætis á við erlenda starfsemi sem Íslendingar hafa greitt aðgengi að í gegnum netið. Á sama tíma þarf að tryggja forvarnir, fræðslu og aðstoð vegna spilafíknar.

Innflytjendur

Bjóðum þau velkomin: Taka ætti vel á móti þeim sem vilja koma hingað til lands til að lifa og starfa. Mikilvægt er að tryggja öryggi erlends verkafólks og virða réttindi þeirra. Innflytjendur auðga bæði menningu og efnahag. Leyfa ætti fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hefur fengið starf hér á landi og er með hreint sakarvottorð, að koma hingað og starfa. Ísland ætti að sýna frumkvæði í því að bjóða fleiri kvótaflóttamönnum hingað.

Verndarkerfið: Stytta þarf og einfalda alla ferla og kerfi er varða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Mikilvægt er að þau sem hingað leita og eru í þörf fyrir alþjóðlega vernd, fái umsókn sína afgreidda fljótt og örugglega. Útlendingalöggjöfina þarf að þróa áfram af mannúð, ábyrgð og raunsæi. Mikilvægt er að löggjöf hér á landi sé sambærileg við löggjöf nágrannalanda.

Jafnrétti, mannréttindi og trúmál

Jafnrétti: Öll ættu að búa við jöfn tækifæri óháð kynferði, kynhneigð, uppruna, trú eða öðrum þáttum. Fjölbreytileiki þrífst best í frjálsu samfélagi.

Mannréttindi: Frelsi má ekki taka sem gefnu og það er meginhlutverk Sjálfstæðisflokksins að standa vörð um það. Atvinnufrelsi, ferðafrelsi og athafnafrelsi hefur verið skert verulega á síðustu árum vegna sóttvarna. Standa þarf vörð um félagafrelsið t.d. með að tryggja rétt launafólks til að velja sér stéttafélag. Eignarréttur er einnig grundvallar mannréttindi og einn af hornsteinum samfélagsins og hann þarf að styrkja og vernda. Auka þarf frelsi foreldra til að gefa börnum nafn og fullorðins fólks til að breyta nafni sínu.

Áfengislög: Afnema á ríkiseinokunarstöðu ÁTVR á sölu áfengis. Áfengiskaupaaldur ætti að vera hinn sami og lögræðisaldur.

Trúmál: Þjóðkirkjan og önnur trú- og lífsskoðunarfélög gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Klára ætti að fullu aðskilnað ríkis og kirkju. Trú- og lífsskoðunarfélög ættu ekki að fá úthlutað ókeypis lóðum frá sveitarfélögum.

Málefni hinsegin fólks

Almennt: Sjálfstæðisflokkurinn vill vera áfram í fararbroddi þeirra sem vilja tryggja mannréttindi og auka réttindi hinsegin fólks. Þarft er að stíga áfram skref sem tryggja jöfn réttindi og jafna stöðu þeirra. Stjórnvöld þurfa að móta sér heildstæða stefnu í málefnum hinsegin fólks, í samstarfi við samtök þeirra, þar sem sérstaklega verði skoðað að styrkja stöðu hinsegin fjölskyldna, einkum með tilliti til ættleiðinga, skráningar og sjálfkrafa viðurkenningar samkynja foreldra. Setja þarf skýra stefnu um hinsegin fólk í leit að alþjóðlegri vernd. Ísland er, og á ávallt að vera, í fararbroddi þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Fólki á að vera frjálst að skilgreina kyn sitt að vild.

Fræðsla: Brýnt er að fræðsla um málefni hinsegin fólks verði efld og veitt á öllum skólastigum og að umfjöllun um þau verði bætt við menntastefnu. Enn fremur að ríki og sveitarfélög tryggi starfsfólki sínu aðgengi að hinseginfræðslu, þá sérstaklega þeim sem koma að því að veita þjónustu til hinsegin fólks.

Ályktun allsherjar- og menntamálanefndar samþykkt á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.