Sigurður Gunnarsson fæddist á Fæðingarheimilinu í Reykjavík fyrir rúmum 50 árum og er yngstur þriggja systkina. Hann ólst upp í Reykjavík en flutti til Egilsstaða fyrir 15 árum og hefur búið þar síðan.
Tvítugur að aldri útskrifaðist Sigurður úr Verzlunarskóla Íslands og síðar sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Í dag starfar hann hjá Alcoa Fjarðaáli sem ferliseigandi. Fyrri störf hans eru m.a. leiðtogi hjá Fjarðaáli, verkefnastjóri hjá Baugi og verslunarstjóri í Bónus.
Sigurður er kvæntur Hrönn Magnúsdóttur grunnskólakennara og saman eiga þau fjögur börn á aldrinum 12-21 árs.
Í sveitarstjórnarkosningunum fyrir tveimur árum var Sigurður kosinn varabæjarfulltrúi og hefur setið í tveimur nefndum á vegum Fljótsdalshéraðs. Hann er formaður íþrótta- og tómstundanefndar og varaformaður fræðslunefndar. Einnig er Sigurður formaður Sjálfstæðisfélags Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar eystri.
Sigurður hefur mikinn áhuga á knattspyrnu og sat í stjórn Knattspyrnudeildar Hattar og var gjaldkeri í stjórn Rekstrarfélags Hattar. Sigurði þykir einnig gaman að ferðast með fjölskyldunni, fara á skíði, lesa bækur og tefla.
Sigurður skipar 7. sæti á lista okkar sjálfstæðismanna í nýju sameinuðu sveitarfélagi.