Á síðustu árum hafa loftslagsbreytingar, aukin hernaðarleg spenna og vaxandi áhugi stórvelda á norðurslóðum gert það að verkum að friður og öryggi á svæðinu er ekki lengur aðeins umræðuefni sérlegra áhugamanna um málið heldur raunverulegt pólitískt viðfangsefni á allra vitorði.
Staða mála á norðurslóðum hefur enda sjaldan eða aldrei verið jafn alvarleg. Reynir nú raunverulega á samstöðu þjóða og nauðsyn þess að líkt þenkjandi þjóðir vinni saman og tali skýrt fyrir friðsælli og farsælli lausn til framtíðar. Friður og öryggi á norðurslóðum byggist ekki á einhliða ákvörðunum eða þrýstingi stórvelda heldur á samstarfi ríkja sem deila sameiginlegum gildum á borð við virðingu fyrir fullveldi, lýðræði og réttarríkinu.
Þessar grundvallarreglur alþjóðasamfélagsins eiga nú undir högg að sækja. Glæfralegar yfirlýsingar og illa ígrundaðar hugmyndir um framtíð Grænlands hafa verið bornar á borð og lítið gert úr aðkomu og sjálfsákvörðunarrétti Grænlendinga þar um. Slíkir tilburðir eru með öllu óásættanlegir í nútímasamfélagi manna. Fullveldi og sjálfsákvörðunarréttur þjóða eru hornsteinar alþjóðaréttar og ber ávallt að virða. Það er jú bæði sjálfsagt og eðlilegt að Grænlendingar fái að ákveða sína framtíð sjálfir.
Grænland er í dag hluti af konungsríki Danmerkur með víðtæka sjálfstjórn og skýran rétt til að ákveða sjálfir næstu skref þar að lútandi, þar með talið um eigið sjálfstæði, kjósi þeir svo. Ráðamenn á Grænlandi hafa í þessu samhengi raunar verið mjög skýrir; vilji þeirra stendur til þess að halda áfram samstarfinu við Danmörku en ekki að gerast hluti af Bandaríkjunum.
Grænland er órjúfanlegur hluti Norðurlandanna og Íslendingar hafa staðið þétt við bakið á Grænlendingum í baráttu þeirra fyrir því að verða fullgildir þátttakendur í Norðurlandaráði og norrænu samstarfi almennt. Sjálf hef ég ávallt talið mikilvægt að Norðurlöndin bindist þéttum böndum og séu samstiga í málefnum norðurslóða. Samhliða þarf þó auðvitað að eiga sér stað náið og gott samstarf við bæði Kanada og Bandaríkin um þetta mikilvæga svæði.
Orðræða forseta Bandaríkjanna síðustu vikna og missera vekur ugg þótt á síðustu dögum hafi vonandi farið að glitta í farsæla lendingu í málefnum Grænlands og beiting hervalds verið slegin af borðunum. Eftir sem áður er nauðsynlegt að Grænlendingar séu hafðir með í ráðum um sína eigin framtíð.
Ísland þarf nú sem aldrei fyrr að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu samtali um norðurslóðir, tala fyrir friði og öryggi og standa vörð um rétt smærri þjóða til að ráða eigin framtíð. Þar eigum við Íslendingar að tala skýrt, sýna staðfestu og vera samstiga vinaþjóðum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

