27. janúar 2026

Hvar er Flóttamannavegurinn?

Svokallaður Flóttamannavegur er vegur sem liggur í gegnum Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog og er notaður í síauknum mæli af þeim sem ferðast milli þessara bæjarfélaga. Með mjög vaxandi umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum, uppbyggingu íbúða og atvinnustarfsemi í umræddum sveitarfélögum og aukinni sókn í útivistarsvæðin hefur vegurinn reynst afar mikilvægur. Um fjögur þúsund bifreiðar aka nú Flóttamannaveginn á hverjum sólarhring. En vegurinn er barn síns tíma enda lagður fyrir um 80 árum og hafa litlar sem engar bætur verið gerðar á honum síðan. Um árabil hafa einkum fulltrúar Hafnarfjarðar og Garðabæjar kallað eftir því að Vegagerðin samþykki endurgerð vegarins enda hefur hlutverk hans snarbreyst á skömmum tíma.

Vegagerðin viðurkennir sem stofnveg til framtíðar

Fyrir nokkrum mánuðum skilaði vinnuhópur fulltrúa sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar niðurstöðum sínum þar sem lagt er til að undirbúningur framkvæmda hefjist. Voru lagðar fram tillögur um útfærslu endurgerðar vegarins svo hann geti nýst sem best sem tenging milli þessara sveitarfélaga. Einnig er gert ráð fyrir sameiginlegum göngu- og hjólastíg meðfram nýjum Flóttamannavegi.

Það eru því mikil vonbrigði að sjá lítil sem engin merki um að ráðist verði í endurgerð vegarins. Einungis eru 50 milljónir króna settar í hönnun vegarins næstu tvö ár og svo ekki krónu meira. Undirrituð tók málið upp í umræðum á Alþingi nú þegar samgönguáætlun var lögð fram.

Vegurinn ekki í áformum ríkisins

Samgönguáætlun er stefna yfirvalda í samgöngumálum og er afar vont að sjá þetta brýna verkefni ekki í framtíðaráformum ríkisins. Eins og alkunna er hefur íbúafjölgun orðið langtum meiri en spáð var í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, auk þess sem ferðamenn eru umtalsvert fleiri en fyrirséð var. Umferðarþunginn hefur því vaxið jafnt og þétt.

Flóttamannavegurinn er mjög mikilvæg viðbót í samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins eins og það hefur þróast og því þarf að gera veginn að góðum og öruggum stofnvegi. Brýnt er að ljúka uppbyggingu hans áður en áætlaðar framkvæmdir við Reykjanesbraut, frá Lækjargötu að Kaplakrika og fleiri stofnvegaframkvæmdir á svæðinu hefjast samkvæmt Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Tólf þúsund manns munu keyra veginn

Tæplega 100 þúsund manns búa í sveitarfélögunum þremur og hefur íbúafjölgun þar verið hlutfallslega mikil síðastliðin ár og vel umfram spár. Höfuðborgarsvæðið er eitt atvinnusvæði þar sem íbúar ferðast á milli á degi hverjum og því mikilvægt að tryggja þeim öruggar og greiðar samgöngur á svæðinu.

Þess vegna mun Flóttamannavegurinn skipta sköpum enda er tekið fram í skýrslu vinnuhópsins að gera megi ráð fyrir að allt að 12.000 manns nýti sér veginn árið 2040.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Rósa Guðbjartsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.