23. janúar 2026

Hækkun orkugjalda er óbein skattahækkun

Lækkun verðbólgu er eitt brýnasta verkefni Íslendinga um þessar mundir. Jafnframt þarf að lækka vexti. Um það eru hagfræðingar, stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar almennt sammála.

Ein helsta forsenda þessara markmiða er sú að hið opinbera hækki ekki verð á þjónustu sinni umfram verðlag. Allar slíkar hækkanir eru olía á verðbólgubálið og geta stefnt kjarasamningum í hættu. Sú krafa samtaka launafólks, að ríki og sveitarfélög gæti hófs í gjaldskrárhækkunum, er því eðlileg.

Ársverðbólga mældist 4,5% í desember 2025 og var um að ræða töluverða hækkun á milli mánaða. Eitt af því sem hafði áhrif til hækkunar var hækkun hitaveitugjalda um 9,2%.

Samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar eiga gjaldskrár þjónustugjalda hennar að hækka um 3,5% að jafnaði á árinu 2026.

Í gildandi fjárhagsspá Orkuveitunnar, sem samþykkt var af stjórn hennar í október 2025, segir eftirfarandi: ,,Gert er ráð fyrir að gjaldskrárhækkanir fylgi að mestu vísitölu neysluverðs eða byggingarvísitölu eftir því sem við á.“

Athyglisvert er að skoða hækkanir á orkugjöldum í þessu ljósi. Veitur, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur (OR), hafa hækkað fastagjald hitaveitu um 49% á undanförnu ári og notkunargjald hitaveitu um 9,6%. Þess skal getið að notkunargjaldið er að meðaltali um 85% af hitaveitureikningi heimila en fastagjaldið um 15%.

Furðulegur feluleikur

Um miklar hækkanir er að ræða en Veitur hafa reynt að fara eins leynt með þær og kostur er. Hækkanirnar voru ekki kynntar fyrir borgarfulltrúum og ekki verður heldur séð af fundargerðum stjórnar OR að þær hafi verið kynntar sérstaklega fyrir henni.

Frétt um hækkanirnar á heimasíðu Veitna er ótrúlega óskýr og framsetning flókin. Hækkanirnar eru ekki gefnar upp í prósentum eins og eðlilegt væri, heldur tilbúnum dæmum út frá forsendum, sem erfitt er að átta sig á.

Framkvæmdastjóri Veitna ver þessar miklu hækkanir með þeim rökum að Veitur standi frammi fyrir gífurlegum fjárfestingum vegna viðhalds og frekari uppbyggingar hitaveitukerfisins. Flutningskerfið sé komið að þolmörkum.

Hitaveitan og Rafmagnsveita Reykjavíkur voru stofnaðar á sínum tíma til að útvega almenningi heitt vatn og rafmagn á hagstæðu verði. Ljóst er að Orkuveitan hefur vanrækt framþróun hitaveitukerfisins á undanförnum árum og þannig brugðist hlutverki sínu. Þess í stað hefur hún lagt áherslu á pólitísk gæluverkefni og  áhættufjárfestingar. Það er því jákvætt í sjálfu sér að Veitur ætli að stórauka forðaleit og stækka veitukerfi sín til framtíðar. Fyrirtækið á hins vegar ekki að fara í felur með kostnaðinn heldur leggja sig fram um að kynna hann fyrir eigendum sínum, almenningi.

Íþyngjandi arðgreiðslur

Ekki er hægt að neita því að gjaldskrárhækkanir Veitna eru nátengdar miklum arðkröfum, sem Reykjavíkurborg gerir til fyrirtækisins. Arðgreiðslur Veitna til móðurfyrirtækisins námu þremur milljörðum króna á árinu 2024 eða 81% af hagnaði ársins. Á árinu 2023 námu arðgreiðslurnar tveimur milljörðum eða um 90% af hagnaði ársins. Þetta eru mjög háar arðgreiðslur og ljóst að með þeim er verið að blóðmjólka fyrirtækið, sem takmarkar mjög getu þess til frekari vaxtar og fjárfestinga. Nær allur hagnaður Veitna undanfarin ár hefur því runnið í borgarsjóð en ekki til að standa undir mikilli fjárfestingarþörf fyrirtækisins.

Þá er athyglisvert að á árunum 2023-2024, á sama tíma og Veitur greiddu fimm milljarða króna í arð til móðurfyrirtækisins, OR, tóku þær ný langtímalán að fjárhæð 8,4 milljörðum króna hjá þessu sama móðurfyrirtæki. Allt þetta skýrir af hverju Veitur telji sig hafa þann kost einan í stöðunni að auka tekjur með því að stórhækka verð til almennings. Veitur hafa staðið undir um helmingi af arðgreiðslum OR. Áætlað er að arðgreiðslur OR til borgarsjóðs muni nema 4,2 milljörðum króna á þessu ári.

Almenningur borgar einokunargróðann

Það hefur verið hluti af pólitík vinstri meirihluta í borgarstjórn undanfarin ár að láta Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtæki hennar greiða sem mestan arð í bágstaddan borgarsjóð. Einokunargróði Orkuveitunnar er ekkert annað en óbeinn skattur á Reykvíkinga og aðra notendur Orkuveitunnar.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2026.