Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í vikunni spurði ég forsætisráðherra út í tilfærslu málefna hjúkrunarheimila frá félags- og húsnæðismálaráðherra til barna- og menntamálaráðherra. Ég verð að viðurkenna að svör forsætisráðherra leiddu til þess að ég skil tilhögunina enn verr en áður og það hvernig verkstjóri ríkisstjórnarinnar nálgast það viðfangsefni að stýra skútunni. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur virðist raunar með meðvituðum hætti ætla sér að auka óreiðu í íslensku stjórnskipulagi og skeyta engu um afleiðingarnar.
Það er ekki að ástæðulausu að við höfum sett okkur skýrar reglur um það með hvaða hætti stjórnskipan landsins skuli háttað.
Í fyrsta lagi þarf að vera hafið yfir allan vafa hjá hvaða ráðherra ábyrgðin á málefnum ríkisins liggur. Línan þarf að vera skýr, t.d. ef láta þarf reyna á ráðherraábyrgð í refsimáli á hendur ráðherra.
Í öðru lagi verða borgararnir að vita hver stýrir hverju þannig að þeir viti hvert þeir eiga að snúa sér varðandi samskipti um tiltekin álitaefni er snúa að tilteknum málaflokki. Hver er t.d. viðsemjandinn varðandi uppbyggingu hjúkrunarheimila?
Í dag er þetta tvennt með öllu óljóst. Samkvæmt tilkynningu forsætisráðuneytisins á heimasíðu stjórnarráðsins fer mennta- og barnamálaráðherra með stjórnarmálefni um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða fyrir eldra fólk. Ábyrgðin muni þó áfram liggja hjá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, þ.e. félags- og húsnæðismálaráðherra, enda hefur málaflokkurinn ekki verið fluttur á milli ráðuneyta. Stangast fréttin því á við svör forsætisráðherra við fyrirspurn minni þar sem Kristrún lýsti því afdráttarlaust yfir að mennta- og barnamálaráðherra bæri bæði lagalega og pólitíska ábyrgð á málaflokknum.
Það er með öllu óboðlegt að hlutir sem þessir liggi ekki skýrt fyrir. Og rétt að spyrja sig að því hvað verður við næstu ráðherraskipti. Lögreglan undir utanríkisráðuneytið? Málefni Hæstaréttar undir umhverfisráðherra? Vegabætur á Hellisheiði undir félagsmálaráðherra?
Og hver mun þá bera ábyrgð á þessum mikilvægu málaflokkum? Þessum spurningum þarf að svara með skýrum og afdráttarlausum hætti, og það sem fyrst.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Ólafur Adolfsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

