Farsældin er háð því að fólk og fyrirtæki geti komið góðum hugmyndum í framkvæmd, nýtt tækifærin samfélaginu öllu til heilla.“ Þessi góðu orð lét fjármálaráðherra, sem jafnframt er varaformaður Viðreisnar, falla í ræðu sinni á Skattadeginum.
Það er því umhugsunarefni að áhersla ríkisstjórnar hans sjálfs endurspeglar ekki þetta skynsamlega viðhorf til verðmætasköpunar heldur virðist ríkisstjórnin þvert á móti hafa einsett sér að draga úr henni með umfangsmiklum skattahækkunum.
Ráðherrann var heldur afsakandi í ræðu sinni þegar hann sagði að hann hefði tekið við ríkissjóði í erfiðri stöðu og að hann hefði verið rekinn með halla í tíu ár. Fyrir utan að það er vel hægt að skila ríkissjóði í plús án þess að hækka skatta er staðhæfingin einfaldlega ekki rétt. Ríkissjóði var skilað með afgangi þar til 2019 þegar hamfaraárin með falli WOW, heimsfaraldri og náttúruhamförum brustu á. Þrátt fyrir að kapp væri lagt á að koma fólki og fyrirtækjum í sem mest skjól á þeim erfiðu árum skilaði síðasta ríkisstjórn ríkissjóði með litlum halla og skuldasöfnun í lágmarki. Samt hafa núverandi stjórnarliðar sagt að þá hafi ríkt einhvers konar óábyrg losaratök á ríkisfjármálunum. Þegar áföllin dundu yfir með mörg hundruð milljarða kostnaði var verið að takmarka tjón fólks en ekki að spreða ríkisseðlum í einhverju vanhugsuðu eyðslufylleríi eins og stjórnarliðar hafa ótrúlega oft og ómaklega leyft sér að ýja að.
Það var margt rétt í ræðu ráðherrans og til dæmis sú skoðun hans að fyrirtækjaskattar væru dæmi um skatta sem væru „tvímælalaust óheppilegir“. Það er gleðilegt að heyra fjármálaráðherra segja skýrt þá skynsamlegu skoðun sína en verra að það virðist ekkert í bígerð af hálfu hans sjálfs til að stemma stigu við þeim. Stjórnarliðar skreyttu sig með stolnum fjöðrum fyrir jól þegar þeir fullyrtu ranglega að þeir væru að lækka skatta á fyrirtæki þegar það var réttilega síðasta ríkisstjórn sem það gerði með því að afnema tímabundna skattahækkun. Ég leyfði mér að hafa á orði af því tilefni að það sé ekki hægt að lækka skatta með óskhyggjunni einni saman. Það á sérstaklega við um fjármálaráðherra, það er hans að standa við þau ágætu sjónarmið sem hann reifar í ræðu og riti en taka ekki ákvarðanir í þveröfuga átt.
Ráðherrann sagði svo í ræðu sinni að við ættum ekki að „skerða vaxtargetu hagkerfisins“. Það er hárrétt hjá ráðherranum að það er forsenda þess að skapa atvinnu, auka hagvöxt og þannig standa undir brýnum sameiginlegum verkefnum samfélagsins. En þá verða efndir að fylgja orðum og gera verður þá kröfu til ráðamanna að þeir meini það sem þeir segja og geri það sem þeir meina. Að minnt sé á að gamla tuggan um nauðsyn þess að það fari saman hljóð og mynd sé gömul og góð af ástæðu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

