Kjörnir fulltrúar bera ábyrgð á að vinna að hagsmunum íbúa og þá skiptir máli að vera með skýra sýn og raunhæfa stefnu að leiðarljósi. Í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum settum við í Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi fram 100 ábyrg og framkvæmanleg loforð á sviðum sem snerta þarfir og þjónustu Kópavogsbúa. Nú, við lok kjörtímabilsins, hafa um 90 þeirra loforða þegar verið efnd og önnur þegar komin í vinnslu. Sameiginlegt markmið allra þessara loforða er að bæta lífsgæði Kópavogsbúa á öllum aldri.
260.000 krónur á hvert heimili í Kópavogi
Við lofuðum skattalækkunum og höfum staðið við það. Fasteignaskattar og gjöld hafa lækkað árlega og nemur heildarlækkunin um fjórum milljörðum króna, eða um 260 þúsund krónum sem sitja eftir á hverju heimili í Kópavogi. Í dag greiða Kópavogsbúar lægstu fasteignagjöld meðal stærstu sveitarfélaga landsins. Þetta skiptir sérstaklega máli nú þegar verðbólgan hefur reynst þrálát, vextir eru háir og ríkisstjórnin boðar tuga milljarða skattahækkanir á heimilin í landinu á árinu 2026¾þvert gegn loforðum um annað í kosningabaráttunni fyrir rétt rúmlega ári síðan. Þetta viðhorf til skattahækkana sjáum við einnig í Kópavogi en Samfylkingin hefur margsinnis lagt til hærri skatta allt þetta kjörtímabil og tekið allan vafa af um að flokkurinn líti á lægri skatta á heimilin sem vannýttar tekjur.
Umbætur í skólamálum
Við höfum einnig farið í alvöru kerfisbreytingar á leikskólaumhverfinu. Með Kópavogsmódelinu höfum við styrkt leikskólastarf og tryggt stöðugleika í mönnun og þjónustu. Með fullmönnuðum leikskólum fá fleiri börn leikskólapláss, allt niður í tólf mánaða. Þá hefur engin leikskóladeild þurft að loka vegna manneklu frá innleiðingu módelsins haustið 2023. Árangurinn af Kópavogsmódelinu hefur vakið verðskuldaða athygli og frábært að sjá önnur sveitarfélög feta svipaðar slóðir.
Í grunnskólum höfum við kynnt umbótaaðgerðir til að styrkja nám okkar barna og brugðist við ákalli nemenda, foreldra og kennara um að meta árangur með samræmdum og sanngjörnum hætti. Samræmd stöðupróf verða tekin upp árlega í 4.–10. bekk í öllum skólum Kópavogs frá og með vorinu og þannig styðjum við betur við nám og framfarir nemenda. Þá erum við að móta aðgerðir til að fjölga fagmenntuðum kennurum, efla enn betur móttöku barna af erlendum uppruna og styrkja samstarf heimilis og skóla.
Verkefni sem skipta máli
Við höfum staðið vörð um grunninnviði sveitarfélagsins og stóðum í lappirnar þegar kom að samræmdri móttöku flóttafólks til að verja okkar skóla- og velferðarkerfi. Við höfum gætt hagsmuna bæjarbúa í samgöngumálum, innleitt heimgreiðslur fyrir foreldra ungbarna, hækkað frístundastyrki og byggt upp betri íþróttaaðstöðu fyrir Breiðablik og nú fljótlega hefjast framkvæmdir á nýjum keppnisvelli fyrir HK. Þá ætlum við að stuðla að frekari uppbyggingu fyrir hestamenn í samstarfi við Sprett á þessu ári. Aðgengi fatlaðra hefur verið bætt, sjálfvirknivæðing aukin til að spara íbúum sporin og við höfum skipulagt ný hverfi með fjölbreyttum húsakosti fyrir ólíkar þarfir okkar íbúa. Þá höfum við eflt þjónustu við eldri borgara og stóraukið starf í þágu geðræktar ungmenna.
Ekki aðeins loforð á blaði
Hér hafa verið rakin einungis fáein dæmi af þeim 100 loforðum sem hafa mótað störf okkar á kjörtímabilinu. Loforðin eru ekki orðin tóm, heldur grunnur að raunverulegum breytingum sem við höfum sett í forgang undir okkar forystu. Með skýrri sýn og stöðugri stefnu höfum við látið verkin tala í Kópavogi og munum halda því áfram. Kæru Kópavogsbúar, ég óska ykkur gleðilegs og farsæls komandi nýs árs.

