Séreignastefnan, þar sem hver fjölskylda á sitt eigið heimili, hefur verið íslenska leiðin í gegnum áratugina og má með sanni kalla hinn íslenska draum. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill eiga raunhæfan möguleika á að búa í sérbýli – hvort sem það er einbýli, raðhús, parhús, tvíbýli eða fjórbýli með sérinngangi. Þetta snýst ekki um munað, heldur um lífsgæði, öryggi og rými fyrir fjölskyldur.
Þessi lífsgæði höfum við á Íslandi byggt upp með því að nýta þá sérstöðu sem felst í því að vera fámenn þjóð í stóru landi. Með öflugu atvinnulífi, ábyrgri auðlindanýtingu og skynsamlegri skipulagsstefnu hefur tekist að tryggja fólki kaupmátt til að fjárfesta í öruggu heimili fyrir fjölskyldu sína. Því miður hafa þessir draumar fjarlægst marga undanfarinn áratug og þar þarf ekki langar útskýringar: skipulagsmál skipta þar mestu máli.
Ofurþétting byggðar, lóðaskortur (sem veldur m.a. lóðabraski) og síhækkandi innviðagjöld hafa leitt til þess að íbúðaverð rýkur upp. Byggingamagn er keyrt upp án þess að rými sé fyrir bílastæði, útivist eða fjölskyldulíf.
Afleiðingin er einsleitni í íbúðaframboði þar sem sérbýlin hverfa í frumskógi fjölbýlishúsa. Hærra fasteignaverð þýðir hærri útborgun, stærri íbúðalán og aukinn fjármagnskostnaður, sérstaklega fyrir ungar fjölskyldur sem eru að stíga sín fyrstu skref.
Því miður höfum við séð þessa þróun færast frá höfuðborgarsvæðinu hingað til Reykjanesbæjar. Oddviti Samfylkingarinnar lýsti bænum til dæmis sem „litlu-Reykjavík“. Ég segi einfaldlega: Nei, takk. Reykjanesbær á ekki að vera eftirlíking af misheppnaðri skipulagsstefnu vinstrimeirihlutans í Reykjavík.
Samfylkingin í Reykjanesbæ hefur lagt fram sína framtíðarsýn, með húsnæðisáætlun til næsta áratugar, sem gerir ráð fyrir því að yfir 90% allra nýrra íbúða verði í fjölbýli. Ég hafna þeirri sýn alfarið, enda mun hún varanlega breyta sveitarfélaginu. Hér er einfaldlega verið að ráðast í hugmyndafræðilega tilraunastarfsemi með lífsgæði fólks.
Við verðum að velja aðra leið. Íbúar Reykjanesbæjar vilja fjölbreytt búsetuform, raunverulegt val og skýra framtíðarsýn sem gerir fólki kleift að byggja, festa rætur og skapa sér heimili sem endurspeglar eigin drauma.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ ætlar að tryggja að það verði hægt. Með fjölbreyttara skipulagi, auknu framboði sérbýlislóða og skýrri stefnu þar sem einstaklingar og fjölskyldur geta sótt um lóðir á sanngjörnum forsendum, í sátt við þarfir atvinnulífsins og samfélagsins í heild.
Nú er ögurstund fyrir Reykjanesbæ og við í Sjálfstæðisflokknum bjóðum upp á skýran valkost sem snýst um að tryggja frelsi fólks til að velja, rými fyrir fjölskyldur og íslenska drauminn um eigið heimili.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins.

