8. janúar 2026

Reykjavík sem virkar

Borg tækifæranna

Ítrekaðar mælingar sýna skýrt ákall borgarbúa eftir breyttum áherslum og nýrri forystu fyrir höfuðborgina. Mann skal ekki undra. Undanliðin kjörtímabil hefur húsnæðisvandinn vaxið, tafatími í umferðinni aukist, staða skólakerfisins versnað og biðlistavandi leikskólanna magnast. Innviðir liggja undir skemmdum sökum viðhaldsskorts og báknið vex af hömluleysi. Fyrirtæki flýja borgina vegna lóðaskorts og ósamkeppnishæfra skatta. Nú er kominn tími á breytingar.

Fjölbreyttar og greiðar samgöngur

Greiðar samgöngur eru lífsgæðamál fyrir íbúa borgarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja frelsi og val um fjölbreyttar samgöngur. Einn fararmáti á ekki að útiloka annan - framtíðin á að fela í sér valfrelsi og sveigjanleika.

Ráðast þarf í nauðsynlegar endurbætur á stofnvegakerfinu og aðgerðir sem draga úr umferðartöfum. Tryggja þarf framgang Sundabrautar og koma Miklubraut í göng án tafar. Samhliða þarf að stuðla að uppbyggingu öflugra almenningssamgangna án þess að þrengt sé að almennri umferð. Við þurfum snjallar ljósastýringar um alla borg og aðgengilegt umhverfi fyrir gangandi og hjólandi. Það er verk að vinna.

Kröftug húsnæðisuppbygging

Húsnæðisskorturinn hérlendis hefur verið viðvarandi og endurspeglast í mikilli verðhækkun íbúða. Vitanlega á höfuðborgin að taka forystu og bregðast við vandanum með stórauknu lóðaframboði. Skipuleggja þarf ný hverfi samhliða hóflegri uppbyggingu innan hverfa sem hafa til þess svigrúm, í sátt við íbúa og nærumhverfi.

Við sjálfstæðismenn viljum ráðast í kröftuga húsnæðisuppbyggingu víða um borg. Við viljum endurskipuleggja húsnæðisáform í Keldnalandi og Úlfarsárdal. Við viljum skipuleggja nýja byggð í Geldinganesi og á Granda, og við viljum byggja meira á Kjalarnesi. Draga þarf úr miðstýringu og treysta markaðnum betur til að bjóða þær húsnæðislausnir sem fólk kallar eftir.

Barnvæn borg

Á síðustu áratugum hefur hlutfall barna af íbúum borgarinnar farið sífellt lækkandi. Fjölskyldur hafa kosið með fótunum og flust þangað sem þjónusta reynist betri.

Reykjavík þarf að vera barnvænni og þjónustan við fjölskyldur betri. Tryggja þarf fjölbreytt úrræði fyrir fjölskyldur í kjölfar fæðingarorlofs og setja þarf málefni grunnskólans í forgang. Við eigum að sýna meiri metnað og stefna að skólakerfi í fremstu röð.

Tryggja þarf betri nýtingu fjármuna sem renna til íþrótta- og tómstundastarfs í Reykjavík. Öll börn eiga að njóta jafnra tækifæra í borginni óháð efnahag foreldra og þeim þarf að tryggja öflug tækifæri til að þroska hæfileika sína í námi og tómstundum.

Öflug grunnþjónusta og traustur fjárhagur

Leggja þarf aukna áherslu á öfluga grunnþjónustu við borgarana - reglulega sorphirðu, áreiðanlegan snjómokstur og snyrtilega umhirðu borgarlandsins. Svo bjóða megi framúrskarandi þjónustu við borgarana þarf fjárhagur borgarinnar hins vegar að vera traustur. Minnka þarf yfirbyggingu, einfalda stjórnkerfið, selja eignir og hagræða í rekstrinum.

Hamingja á þínum forsendum

Reykjavík hefur alla burði til að verða borg tækifæranna. Hér þarf að skapa borg sem virkar fyrir fólk og fyrirtæki. Höfuðborg, þar sem fólk getur leitað hamingjunnar á eigin forsendum. Borgarumhverfi sem setur fjölskyldur í forgang og velferðarþjónustu sem tryggir rétt sérhvers einstaklings til að lifa með reisn. Við þurfum borgarumhverfi sem laðar að sér hæfileikafólk með úrvali atvinnutækifæra, spennandi búsetukostum, iðandi menningarlífi og fjölbreyttum samgöngukostum. Við þurfum borg sem ryður veginn fyrir þá sem vilja sækja fram og styður við hugmyndaauðgi og verðmætasköpun. Höfuðborg sem byggist á frjálsum valkostum, jöfnum tækifærum, frjálsu framtaki og hagkvæmum rekstri. Við þurfum Reykjavík sem virkar.

Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 6. janúar 2026.