Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur var til viðtals hjá Kristjáni Kristjánssyni á Sprengisandi um fyrir skömmu. Þar ræddi hún nýja rannsókn sína á því hvort unglingar með erlendan bakgrunn væru líklegri til að brjóta af sér en aðrir. Hún greindi frá því að þeir væru sannarlega líklegri til að brjóta af sér, en skýrði þá hegðun með öðru en upprunanum, m.a. með áföllum. Hún setti niðurstöðurnar sömuleiðis í samhengi við erlendar rannsóknir sem sýndu að innflytjendur upplifðu óréttlæti og hindranir í búsetulöndum. Slíkar neikvæðar tilfinningar hefðu óhjákvæmilega áhrif á hegðun.
Fórnarlömb eða gerendur (eða hvort tveggja)?
Ég hefði reyndar haldið að í sumum tilvikum væru uppruni og áföll nátengd, ekki síst varðandi innflytjendur frá ákveðnum svæðum. Ég er ekki sérfróð um efnið, en af reynslu minni sem lögmaður veit ég að algengt er að brotamenn réttlæti hegðun sína með einhverjum hætti, þeir upplifi sig á einhvern hátt sem fórnarlömb, en ekki gerendur.
Það er gott að fjallað sé um innflytjendur á Íslandi og fræðimenn skoði stöðu þeirra sérstaklega. Enda hefur mikill fjöldi fólks flust hingað á undanförnum árum, í raun svo mikill að það á sér væntanlega enga hliðstæðu í okkar heimshluta á síðari árum. Við höfum þurft á vinnuafli að halda, en þessu hafa óhjákvæmilega fylgt vandkvæði sem mismikil stemning hefur verið fyrir að ræða.
Við eigum nefnilega ekki nægjanlega góð gögn um innflytjendur á Íslandi. Því hef ég ítrekað lagt fram tillögur á Alþingi, ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, um að við komum upp svonefndu mælaborði til að fylgjast með og meta árangur af aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Slík mælaborð eru til og upplýsingar úr þeim aðgengilegar m.a. á Norðurlöndunum. Markmiðið er augljóst: að fylgjast með og meta árangur af aðlögun innflytjenda að samfélaginu. Ekki síst hvar vel gengur og hvar skórinn kreppir.
Mikill munur eftir uppruna
Dönsk tölfræði sýnir nefnilega mikinn mun á innflytjendum eftir uppruna. Þannig er m.a. margfalt hærri afbrotatíðni meðal karlkyns innflytjenda frá sumum löndum utan Vesturlanda og afkomenda þeirra sömuleiðis. Þeir skera sig þannig algjörlega úr í dönsku samfélagi. Einhverjir skýra afbrotin e.t.v. m.t.t. til áfalla eða upplifunar. Tölfræðin er í það minnsta skýr og verður ekki vefengd. Tölfræðin hvetur til varkárni. Og burtséð frá áföllum í æsku, þá er innflutningur vandamála, þ.m.t. afbrota, ekki til eftirbreytni.
Það væri síðan verðugt verkefni fyrir afbrotafræðinga að skoða aðrar breytur á borð við ofbeldismenningu, afstöðu til kvenna, vinnumenningar o.s.frv. Kannski sumir telji að slíkt eigi að liggja í þagnargildi.
Það er ekki sjálfgefið að fólk í fjölmenningarsamfélagi eins og Ísland er orðið vinni að sama markmiði. Það hlýtur þó að vera algjör grundvallarforsenda fyrir ákvarðanatöku um málefni innflytjenda að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar og tölfræði. Við munum því berjast áfram fyrir bættri upplýsingasöfnun um innflytjendur.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

