6. janúar 2026

Hildur sjálfkjörinn oddviti í Reykjavík

Hildur Björnsdóttir er sjálfkjörinn oddviti á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum. Ekkert annað framboð barst í boðað leiðtogaprófkjör, sem fram átti að fara laugardaginn 24. janúar.

„Ég hlakka til að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í borginni í vor. Við höfum ítrekað mælst langstærsti flokkurinn í borgarstjórn, skynjum mikinn meðbyr og ljóst að borgarbúar kalla eftir breytingum. Framundan eru spennandi mánuðir og mikilvægar kosningar. Brýnustu verkefnin í Reykjavík eru hagræðing í rekstri borgarinnar, að draga úr umferðartöfum, stórauka lóðaframboð og lækka skatta. Huga betur að barnafólki, leysa leikskólavandann og hefja stórsókn í skólamálum. Við þurfum að koma höfuðborginni aftur í forystu," segir Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.