Reykvíkingar eru öllu vanir þegar kemur að því að upplifa allt annan veruleika en kjörnu fulltrúarnir sem mynda meirihlutann tala um. Fjárhagslegar sjónhverfingar og flottar þrívíddarmyndir af brosandi gervifólki í blómlegum hverfum í fjarlægri framtíð sem eiga að leysa öll vandamál duga ekki.
Fólk kýs á endanum raunveruleikann. Það eru allar líkur á að vinstriflokkarnir í borginni verði uppiskroppa með liðsauka til að tjasla saman nýjum meirihluta sem fer stöðugt minnkandi og loksins verði löngu tímabærar breytingar í borginni.
Það ætti ekki að koma á óvart að svipuðum brögðum sé beitt af hálfu vinstristjórnarinnar sem nú er við völd í landinu, ríkisstjórnar sem hefur staðið fyrir meiri áróðurs- og frasavæðingu stjórnmálanna en áður hefur lengi sést hér á landi. Auk þess hefur að eigin sögn sjaldan ef nokkurn tíma gengið betur að ná tökum á efnahagsmálunum, verðbólgunni, stöðu heimilanna.
Allt er í toppmálum. Planið er að virka. Allir sem voga sér að efast um yfirlýsingarnar eru hælbítar og biturt úrtölufólk sem unir ekki stöðu sinni og öfundast út í ráðsnilldina.
Atvinnuleysi mældist samt 6,5% í síðustu mælingu Hagstofunnar. Það eru tölur sem hafa ekki sést síðan í heimsfaraldrinum. Höfuðatvinnugreinarnar lýsa alvarlegri stöðu og það verður fróðlegt að sjá hagvöxt síðasta árs. Verðbólgan hefur nokkurn veginn staðið í stað frá kosningum og virðist jafnvel vera á uppleið. Vextirnir hafa því sömuleiðis varla haggast.
Þrátt fyrir verðmætasköpunarhaustið, tiltektina, leiðréttinguna, lýðræðisákvæðið, aðhaldið á tekjuhliðinni og öll nýyrðin og frasana (Árnastofnun gæti þurft tekjuauka vegna yfirvinnu hjá Íslenskri nútímaorðabók árið 2025) þá finnur fólk að hlutirnir ganga ekki betur, róðurinn er þyngri, húsnæðismarkaðurinn er í lamasessi.
Það kemur að því að fólk velur raunveruleikann umfram nánast sovét-skotnar lofræður fólks um sjálft sig og stöðu lands og þjóðar. Almenningur hefur jú á endanum valdið. En almenningur verður þá að fá réttar upplýsingar.
Upplýsingaóreiða er ógn við lýðræðið. Að láta það átölulaust að valdhafar kalli hlutina síendurtekið ekki sínum réttu nöfnum í gegndarlausri áróðursvæðingu stjórnmálanna er hluti af upplýsingaóreiðu.
Að lýðræðinu steðjar ógn víða, við vitum það öll. Það er á ábyrgð okkar að passa upp á það. Það er því á ábyrgð okkar allra að fara vel með sannleikann, vera gagnrýnin á það sem við heyrum, jafnvel þótt við teljum okkur í liði með þeim sem talar. Við eigum líka að reyna eftir megni að kynna okkur staðreyndir og gera þá kröfu á fólk, sérstaklega þau sem fara með völd, að það geti staðið fyrir máli sínu og geri það. Ábyrgð valdhafa að fara vel með orðin, staðreyndirnar og sannleikann hefur sjaldan verið meiri.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

