Nú hefur vinstristjórn Kristrúnar Frostadóttur afgreitt sín fyrstu fjárlög. Það sem stendur upp úr er þetta:
Gríðarleg útgjaldaaukning á milli ára. Aukning er hvorki meiri né minni en 143 milljarðar.
Skattar eru hækkaðir um rúmlega 30 milljarða króna.
Hallinn er 28 milljarðar.
Skuldir aukast um 82 milljarða á næsta ári.
Tóku við góðu búi
Það eru margar áskoranir fyrir íslensk stjórnvöld en það breytir ekki því að núverandi ríkisstjórn tók við góðu búi. Hér eru nokkur dæmi:
Tekjur ársins 2025 eru mun meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Fjárlög hefðu verið hallalaus ef ekki hefðu komið til aukin útgjöld í fjórum fjáraukalögum ríkisstjórnarinnar.
Skuldir ríkissjóðs eru lágar í alþjóðlegum samanburði.
Lánshæfismat ríkissjóðs hefur aldrei mælst betra.
Lífeyriskerfið er eitt það öflugasta á byggðu bóli ef ekki það öflugasta.
Kyrrstaðan í orkumálum var rofin á síðasta kjörtímabili.
Nýsköpunarumhverfið hefur tekið stakkaskiptum.
Kostnaður vegna Covid er ekki lengur til staðar.
Kostnaður vegna Reykjaneselda er ekki lengur til staðar.
Búið er að taka niður þann gríðarlega kostnað sem var vegna hælisleitenda.
Mikið er til af ríkiseignum sem hægt er að losa um til að lækka skuldir og auka verðmætasköpun.
Vanskil heimila hafa aldrei mælst minni.
Skuldir heimila mælast lægstar á Norðurlöndunum.
Það voru því allar forsendur til að koma með aðhaldssöm fjárlög og hefja skuldalækkun en þessi ríkisstjórn ákvað að auka útgjöld og hækka skatta og skuldir.
Allar hagræðingartillögur felldar
Við Sjálfstæðismenn komum fram með tillögur við meðferð fjárlaga. Við lögðum til 45 milljarða aðhald og sparnað og 30 milljarða lækkun skatta á fólk og fyrirtæki.
Allar tillögur okkar og stjórnarandstöðunnar voru felldar! Þess í stað voru skattar hækkaðir meira á milli umræðna sem og útgjöld. Engar tillögur komu fram frá ríkisstjórnarflokkunum um hagræðingu eða aðhald við vinnslu fjárlaganna.
Ríkisstjórnarflokkarnir komu hins vegar með áhugaverðar tillögur við 3. umræðu fjárlaga. Fjölga á starfsmönnum Skattsins um 15! Kostnaður við það er 250 milljónir á ári. Þessi fjölgun ríkisstarfsmanna á að skila 1,1 milljarði i auknar skatttekjur, hvorki meira né minna. Ekki fengust svör við því að af hverju starfsmönnum er ekki fjölgað um 30-45 eða 150 sem myndi væntanlega skila, 2,2-3,3 eða jafnvel 11,1 milljarði í sjóð allra landsmanna.
Hin svokallaða Stöðugleikaregla
Ríkisstjórnin hóf vegferð sína á að brjóta lög um opinber fjármál en notaði ferðina til að setja í lögin hina svokölluðu stöðugleikareglu. Reglan tryggir ekki stöðugleika heldur er hún veik útgjaldaregla sem hægt er að veikja enn frekar með því að hækka skatta. Þannig að ef þú vilt halda þér innan reglunnar þá er alltaf hægt að hækka skatta til að halda sig innan marka. En þetta er samt sem áður einhver hemill á útgjöld. Ráðherra málaflokksins sagði að hún yrði aldrei notuð að fullu hjá þessari ríkisstjórn. Til að gera langa sögu stutta þá hefur ríkisstjórnin verið í þaki reglunnar frá því fjárlagafrumvarpið kom fram. Með hverri umræðu versnaði staðan og nú er svo komið að reglan hangir á 15 milljónum króna! Ef afkoma ríkissjóðs er 15 milljónum lakari en frumvarpið gerir ráð fyrir er reglan fallin. 15 milljónir eru 0,0098% af útgjöldum ríkissjóðs þannig að það má ekkert út af bregða. Það þarf ekki annað til en að einn af þessum 15 nýju starfsmönnum skattsins fái flensu og þá er reglan sprungin með miklum hvelli!
Skattahækkanir vinstristjórnarinnar ná engum tekjum
Vinstristjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að vinna ekki heimavinnuna og tala ekki við þá sem best þekkja þegar mál koma fram og þá sérstaklega þegar hún veður fram með skattahækkanir. Ráðherrar hlusta ekki. Á stuttum starfstíma hefur komið í ljós að þessi gagnrýni á við rök styðjast og afleiðingarnar eru öllum ljósar. Eins og allir muna ætlaði ríkisstjórnin að hækka skatttekjur ríkisins um 7,6 milljarða með því að hækka skatta á sjávarútveginn. Það var skrifað inn í frumvarpið en í meðförum meirihlutans fór upphæðin úr 7,6 milljörðum í 900 milljónir. Með öðrum orðum: skattahækkunin skilaði ekki þessum auknu tekjum en olli uppsögnum fólks og skertri samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.
Vinstristjórnin lætur samt sem áður ekkert stoppa sig á þessari vegferð og keyrði í gegn vörugjöld, kílómetragjald og fleiri skatta sem allir hagaðilar hafa bent á að muni ekki skila þeim tekjum sem embættismenn og spunameistarar ríkisstjórnarinnar hafa sett á blað.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

