Auglýst er eftir framboðum til leiðtogaprófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Frambjóðendur skulu vera kjörgengir í næstu sveitarstjórnarkosningum, flokksbundnir sjálfstæðismenn og búsettir í Reykjavík.
Prófkjörið fer fram laugardaginn 24. janúar 2026.
Framboðsfrestur rennur út þriðjudaginn 6. janúar klukkan 12:00.
Frambjóðendur eru hvattir til að kynna sér vel prófkjörsreglur Sjálfstæðisflokksins sem og þau ákvæði sem finna má í skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins varðandi prófkjör og framboðsmál.
Framboði er skilað rafrænt inn á mínum síðum á xd.is.
Hver frambjóðandi skal skila inn meðmælum með framboði sínu frá að minnsta kosti 20 flokksbundnum sjálfstæðismönnum búsettum í Reykjavík. Tekið skal fram að enginn meðmælandi má mæla með fleirum en einum frambjóðanda. Frambjóðendur sjá um að skrá meðmælendur inn á rafræna umsókn með framboði ásamt því að senda undirritanir meðmælenda með umsókn sinni. Frambjóðendur geta nálgast eyðublað til að safna meðmælum í prófkjörinu hér.
Hver og einn frambjóðandi skal skila ljósmynd og allt að 200 orða kynningartexta með framboði sínu. Efnið verður notað til að kynna frambjóðendur. Frambjóðendum er að auki heimilt að láta fylgja með ferilskrá og senda með hlekki inn á heimasíðu, samfélagsmiðla og annað sem tengist framboði þeirra. Þá er áformað að haldinn verði frambjóðendafundur í aðdraganda leiðtogakjörsins sem auglýstur verður síðar.
Frambjóðendur í önnur sæti
Áhugasamir um að taka sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru beðnir að senda tölvupóst á netfangið jonb@xd.is með upplýsingum um nafn og kennitölu. Einnig er heimilt að gefa ábendingar um líklega frambjóðendur í gegnum sama tölvupóstfang.
Kjörnefnd
Samkvæmt ákvörðun Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík 10. nóvember sl. verður raðað í önnur sæti listans með uppstillingu. Með vísan til V. kafla reglugerðar fyrir Vörð er auglýst eftir framboðum í kjörnefnd sem hefur það hlutverk að gera tillögu að framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að undanskildu leiðtogasætinu. Fulltrúaráðið kýs átta menn í kjörnefnd.
Framboðsfrestur rennur út þriðjudaginn 6. janúar klukkan 12:00.
Frambjóðendur gefa skriflega kost á sér til starfans. Framboð telst gilt ef það berst yfirkjörstjórn fyrir lok framboðsfrests enda sé gerð um það skrifleg tillaga af fimm fulltrúum í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hið fæsta og af ekki fleiri en tíu fulltrúum. Hér er að finna eyðublað vegna frambjóðenda í kjörnefnd.
Allar nánari upplýsingar um prófkjör Sjálfstæðisflokksins 2026 er að finna hér.
Yfirkjörstjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík

