Fjölskyldan er grunnstoð íslensks samfélags. Allt velferðarkerfið, framtíðarhagvöxtur og félagslegt öryggi þjóðarinnar byggist á því að ungt fólk treysti sér til að stofna fjölskyldu, eignast börn og skapa heimili þar sem börn geta alist upp við öryggi og stöðugleika. Til þess þarf fjölskyldan svigrúm og frelsi. Frelsi til að ráðstafa eigin tekjum, ráðstafa fæðingarorlofsmánuðunum, velja fjármögnunarleið og samræma vinnu og heimilislíf án afskiptasemi ríkisvaldsins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf staðið vörð um þetta frelsi. Við höfum talað fyrir sanngjörnum sköttum, raunhæfum húsnæðismarkaði og fjölskylduvænu kerfi þar sem einstaklingar og pör hafa sjálf stjórn á eigin ákvörðunum.
Þess vegna er sérlega alvarlegt að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur skuli nú ráðast með skipulögðum hætti á þetta frelsi. Aðgerðir hennar ganga þvert gegn þeirri lífssýn að fjölskyldan sé grunneining samfélagsins og færa okkur í átt að ríkisafskiptum og auknum álögum á heimilin.
Afnám samsköttunar hjóna er skýrt dæmi. Hér er um að ræða kerfi sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum fjölskyldna þegar annar maki er í námi, veikindum, fæðingarorlofi eða tímabundið frá vinnumarkaði. Með því að slá þetta út af borðinu er verið að refsa heimilum sem standa frammi fyrir áskorunum og draga úr sveigjanleika þeirra. Það er ekki réttlæti. Það er ekki fjölskylduvæn stefna. Það er einfaldlega skattahækkun á heimilin í landinu.
Og þetta er bara upphafið. Dæmin eru fleiri og ætlar ríkisstjórnin einnig að: svipta fólk rétti til að nota séreignasparnaðinn skattfrjálst inn á íbúðalán, það kerfi sem hefur hjálpað þúsundum heimila að ná tökum á skuldum sínum hækka vörugjöld um tugi prósenta á algengustu fjölskyldubílana hækka skatt á leigutekjur um 50%, sem mun óhjákvæmilega skila sér í hærri húsnæðiskostnaði setja á kílómetragjöld, sem skapar flækjur, ófyrirsjáanleika og mikinn kostnað
Þetta eru markvissar aðgerðir til að taka meira úr vösum millistéttarinnar, fjölskyldunnar sem heldur uppi velferðarkerfinu og atvinnulífinu. Endar þetta með samskömmtun ríkisstjórnarinnar?
Við sjálfstæðismenn munum ekki una þessu. Við munum berjast gegn þessari skattasókn sem dregur úr frelsi fólks og veikir undirstöður samfélagsins. Við höfum lagt fram skynsamlegri, ábyrgari og árangursríkari tillögur til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, án þess að ganga sífellt dýpra í vasa fjölskyldunnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

