Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:
Þrenging Suðurlandsbrautar er í samræmi við þá stefnu vinstri flokkanna að þrengja að umferð í Reykjavík og auka þannig umferðartafir.
Vinstri meirihlutinn í borgarstjórn hyggst taka tvær akreinar af almennri umferð á drjúgum kafla Suðurlandsbrautar og gera þær að sérakreinum fyrir borgarlínu. Deiliskipulagstillaga þar að lútandi er nú til meðferðar í borgarkerfinu. Tillagan sú arna er í fullu samræmi við þá stefnu vinstri flokkanna að auka skuli umferðartafir með því að þrengja að umferð í Reykjavík.
Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddum atkvæði gegn þrengingartillögu meirihlutans í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur. Á fundi borgarstjórnar 16. desember 2025 lögðum við síðan til að fallið yrði frá tillögunni. Jafnframt yrði deiliskipulagið endurskoðað frá grunni í því skyni að sérakreinum fyrir strætisvagna verði komið fyrir á jaðri akbrauta en ekki þrengt að almennri umferð eða fjölda bílastæða á svæðinu. Áhersla yrði einnig lögð á góðar og öruggar göngu- og hjólatengingar. Vinstri meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna, felldi tillögu okkar.
Ef vinstri meirihlutanum tekst það ætlunarverk sitt að taka tvær akreinar af almennri umferð á Suðurlandsbraut er augljóst að umferðartafir í aðliggjandi hverfum munu stóraukast og raunar í borginni allri. Miklar umferðartafir á Suðurlandsbraut munu leiða til þess að umferð þaðan leiti í auknum mæli inn í nærliggjandi íbúahverfi.
Mikil fækkun bílastæða
Suðurlandsbraut er ein helsta umferðaræð borgarinnar en um hana fara um 25 þúsund bifreiðar á dag. Gatan er mikilvæg tengibraut milli austurs og vesturs og þjónar fjölmennum íbúahverfum og atvinnuhverfum. Fækkun akreina úr fjórum í tvær mun því leiða til stóraukinna og kostnaðarsamra umferðartafa. Jafnframt stefnir meirihlutinn að mikilli fækkun bílastæða við götuna. Nú þegar eru bílastæði af skornum skammti þar og er gjarnan setið um hvert stæði sem losnar.
Við Suðurlandsbraut eru mörg atvinnufyrirtæki og vinsælir veitingastaðir. Þrenging brautarinnar og mikil fækkun bílastæða myndi torvelda aðgang að fyrirtækjunum og hafa neikvæð áhrif á rekstur þeirra.
Mörg fyrirtæki við brautina hafa látið áhyggjur sínar í ljós vegna fyrirhugaðrar fækkunar akreina og bílastæða á svæðinu. Alfarið er lagst gegn því að þannig verði þrengt að einu helsta verslunar- og þjónustusvæði borgarinnar Stjórnendur sumra fyrirtækja hafa sagt að með slíkum breytingum verði þau knúin til að flytja úr götunni og jafnvel úr borginni.
Allir húseigendur við Suðurlandsbraut 2 – 32 hafa mótmælt fyrirhuguðum breytingum harðlega en talað fyrir daufum eyrum fulltrúa borgarinnar. Kvarta þeir yfir því að hvorki sé hlustað á sjónarmið þeirra né tillögur að lausnum.
Eflum strætó strax
Unnt er að stórbæta almenningssamgöngur með því að ráðast í skilvirkar endurbætur á núverandi strætókerfi í stað þess að bíða eftir borgarlínu til ársins 2032 eða í rúman hálfan áratug. Í þessu skyni hefur Sjálfstæðisflokkurinn meðal annars lagt til að strax verði hafist handa við lagningu forgangsakreina fyrir strætó en þó án þess að þrengja að annarri umferð.
Að auki hafa borgarfulltrúar flokksins lagt til að strætókerfið verði bætt með því að tryggja strætisvögnum forgang með snjallstýringu umferðarljósa, úrbætur verði gerðar á biðskýlum og skiptistöðvum með sérstöku átaki, endurnýjun vagnaflotans verði hraðað og umbætur gerðar á leiðakerfinu.
Vel er hægt að bæta við forgangsakreinum fyrir strætisvagna víða í borginni, þar á meðal við Suðurlandsbraut, án þess að taka akreinar af annarri umferð. Slíkt væri mun skynsamlegra en að auka umferðartafir viljandi eins og vinstri meirihlutinn stefnir nú að.
Tugmilljarða tafaskattur
Umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu hafa aukist mjög undanfarin ár vegna stefnu vinstri meirihluta undir forystu Samfylkingarinnar. Tafirnar eru ekki tilviljun heldur markvisst mynstur, sem skapað hefur verið í því skyni að þrengja að fólksbílum. Ljóst er að kostnaður einstaklinga vegna þessa tafaskatts vinstri flokkanna er ekki undir sextíu milljörðum króna árlega. Þjóðhagslegur kostnaður er hins vegar mun hærri.

