18. desember 2025

Veggjöld eru leiðin fram á við

Að byggja upp samgöngur í stóru landi með fáa íbúa er og verður krefjandi verkefni. Reynsla undanfarinna ára og áratuga sýnir jafnframt að fyrirkomulag fjármögnunar mun ekki skila tilætluðum árangri og þó gríðarlega margt hafi áunnist má miklu betur ef duga skal. Í langan tíma hefur fjármögnun uppbyggingar samgönguinnviða verið á villigötum en sú leið sem núverandi ríkisstjórn hyggst feta er að mínu mati ein sú versta sem hægt er að fara. Betur er heima setið en að halda áfram þessari vitleysu.

Hugmyndin um veggjöld var sett fram hér á landi árið 2017. Mætir einstaklingar með góða þekkingu á viðfangsefninu tóku að sér undirbúning en hugmyndin sætti mikilli gagnrýni og skiptar skoðanir voru um málið. Íbúar og sveitarstjórnarmenn frá Vesturlandi til Vestfjarða voru almennt jákvæðir, einkum og sér í lagi vegna reynslu sinnar af Hvalfjarðargöngum á meðan aðrir, til dæmis á Suðurlandi og Reykjanesi, voru gagnrýnni. En hugmyndin lifir enn og gagnrýnisröddum fer sífellt fækkandi, meðal annars á Alþingi.

Veggjöld eru þekkt fjármögnunarleið um allan heim og langt því frá tilviljun að þau hafi orðið fyrir valinu víða. Veggjöld hafa skilað miklum árangri og flýtt uppbyggingu vegakerfa sem standast nútímakröfur.

Við afgreiðslu samgönguáætlunar 2018-19 breytti þingið í grundvallaratriðum hugmyndum þáverandi samgönguráðherra og setti inn skýra stefnu um að hefja innheimtu veggjalda. Tillaga samgöngunefndar var samþykkt af öllum flokkum á Alþingi. Því miður hefur ekki verið farið að samþykkt Alþingis og mikilvæg ár tapast. Óhætt er að fullyrða að ef haldið hefði verið áfram með hugmyndafræði veggjalda frá árinu 2017 væri staðan í samgöngumálum allt önnur í dag. Við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins tölum mörg fyrir því að þessi leið verði farin og finn ég mikla samstöðu frá þingmönnum annarra flokka. Tillögur mínar eru eftirfarandi:

Stofnað verði innviðafélag um vegakerfið sambærilegt Landsneti um meginflutningskerfi raforku. Helstu þjóðbrautir, valdir vegir og jarðgöng skuli færð í félagið, sem styrkja efnahagsreikning þess, og ætti fjármögnun þess að geta verið hagkvæm. Félaginu verði svo falin uppbygging meginvegakerfisins um allt land.

Innheimta veggjalda hefjist strax víða um land og notuð til þess þekkt tækni sem tryggir einfalda og skilvirka innheimtu. Gjaldi verði stillt mjög í hóf hjá þeim sem oft keyra um á meðan einskiptis notendur greiða hærra verð. Mikilvægt er að hefja gjaldtöku samhliða framkvæmdum en þannig sparast mikill kostnaður við fjármögnun og hægt er að hafa veggjaldið lægra en ella. Í útreikningum sem unnir voru í samgönguráðuneytinu árið 2017 var reiknað með 150 kr. fyrir meginþorra fólks.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að á síðasta ári innheimtu gjalda í Hvalfjarðgöng kostaði ferðin 238 kr. ef keyptar voru 100 ferðir en stök ferð 1.000 kr. Tekjur af einskiptis notendum voru þá tæp 40% af heildartekjum, stærstur hluti þeirra frá erlendum ferðamönnum. Þannig má færa rök fyrir því að erlendir ferðamenn standi undir 40% af uppbyggingu vegakerfisins.

3. Aðrar álögur á bifreiðaeigendur lækkaðar samhliða. Vörugjöld af bifreiðum verði lækkuð svo um muni.

Núverandi ríkisstjórn hyggst aftur á móti hækka verð á algengum heimilisbílum um 800 til 1.500 þúsund samhliða upptöku kílómetragjalds. Sjálfstæðisflokkurinn vill hins vegar lækka álögur þannig að sambærilegir bílar lækki í verði um eina milljón króna.

Þessi leið tryggir að hið nýja innviðafélag geti ráðist í öfluga uppbyggingu um allt land, hægt verði að gera langtímaáætlanir og ráðast í stærri framkvæmdir. Árið 2017 var hugmyndin sú að bjóða út í einu verki tvöföldun Suðurlandsvegar með tilheyrandi mislægum gatnamótum frá Kambarótum og austur fyrir Þjórsá ásamt nýrri brú yfir Ölfusá. Það er vel framkvæmanlegt með þeirri innheimtu sem hér liggur til grundvallar og augljóst að öll uppbygging verður hagkvæmari með svo stórum útboðum í stað þess bútasaums sem einkennt hefur uppbyggingu fram að þessu. Við verðum að hugsa stærra og gera meira.

Nokkuð víðtækur stuðningur virðist vera við þessa aðferðafræði. Við stöndum því sannanlega á tímamótum. Ríkisstjórnin þarf að staldra við og leggja hugmyndir sínar um stórkostlegar skattahækkanir á hilluna ásamt innleiðingu á innheimtukerfi, sem mér vitanlega ekkert annað land hefur tekið upp.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.