18. desember 2025

Hvunndagurinn skattlagður

Fyrir síðustu kosningar var málflutningur forystumanna ríkisstjórnarflokkanna mjög skýr um tvennt; að ná tökum á verðbólgu og vöxtum og hækka ekki skatta á venjulegt fólk. Við atkvæðagreiðslu í þingsal í gær á ýmsum lögum vegna fjárlaga gekk stjórnarmeirihlutinn því miður á bak þeirra orða sinna um hvort tveggja.

Bandormurinn svokallaði sem fylgir fjárlögunum innifelur nefnilega gríðarlegar skattahækkanir á allan almenning í landinu. Almenning sem samanstendur af venjulegu vinnandi fólki að kljást við sinn hvunndag á okkar ágæta landi eftir bestu getu.

Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka vörugjöld á ökutæki svo um munar með þeim afleiðingum að hefðbundnir fjölskyldubílar koma til með að hækka um eina til tvær milljónir króna í verði. Bílaumboð hafa því undanfarið keppst við að flytja inn bíla í stórum stíl fyrir áramót og landsmenn hvattir til að tryggja sér eintak fyrir áramót áður en hækkanirnar taka gildi. Minnir ástandið á gamla tíma gengisfellinga og auglýsinga um „gamla verðið“.

Auknum þyngslum í heimilisrekstrinum lýkur þó alls ekki þar. Ríkisstjórnin hefur t.d. ákveðið að afnema heimild hjóna og sambúðarfólks til samnýtingar á skattþrepum. Stjórnarliðar hafa haldið því fram statt og stöðugt að einungis tekjuhæstu prósent þjóðarinnar nýti sér þessa heimild og að meginþorri þeirra sem njóti góðs af séu karlmenn. Gætir þar rangfærslna. Óumdeilt er að samnýtingin léttir undir með fjölskyldum og veitir þeim svigrúm til að takast á við áskoranir tilverunnar. Aðstæður hjóna og sambúðarfólks taka breytingum yfir tíma, þegar börnin eru ung, ef annað þeirra hyggst sækja sér menntun, annað verður fyrir veikindum og svo mætti lengi telja. Hvers vegna ættu pör ekki að geta samnýtt þrep hvort annars við slíkar aðstæður? Rekstur heimilisins er jú þeirra sameiginlega ábyrgð eftir sem áður. Þá fer því fjarri að einungis þau tekjuhæstu njóti góðs af, tekjulægri makar tilheyra öllum tíundum tekjudreifingarinnar samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu.

Loks er rétt að nefna hækkanir ríkisstjórnarinnar á svokölluðum almennum krónutölugjöldum langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. Slíkar hækkanir bitna hvað verst á þeim sem minnst hafa á milli handanna, sem hefur hingað til verið staðreynd sem hefur verið flokkunum í ríkisstjórninni hugleikin þar til nú. Það er óskiljanlegt að ákveðið sé að hækka þau gjöld langt umfram verðbólgumarkmið og leggja óþarflega þungar byrðar á fólkið og fyrirtækin sem þurfa að borga hina ýmsu brúsa. Fyrir utan og ekki síst þar sem sú ákvörðun mun að öllum líkindum stuðla að enn meiri verðbólgu – núna þegar síst skyldi og þvert á yfirlýsingar og hástemmdar heitstrengingar í aðdraganda kosninga gagnvart fólkinu í landinu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.