Halldór Blöndal, fyrrverandi forseti Alþingis, ráðherra og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins er látinn 87 ára að aldri. Halldór fæddist í Reykjavík 24. ágúst 1938. Hann lést 16. desember sl.
Halldór tók fyrst sæti á Alþingi sem varaþingmaður árið 1971 en var kjörinn á þing árið 1979 og átti sæti þar samfellt til ársins 2007 eða í 28 ár fyrir Norðurlandskjördæmi eystra og síðar Norðausturkjördæmi.
Halldór var landbúnaðar- og samgönguráðherra á árunum 1991-95, samgönguráðherra 1995-99 og forseti Alþingis 1999-2005.
Saga Halldórs og Sjálfstæðisflokksins spannar þó mun lengra skeið. Hann sat sinn fyrsta þingflokksfund árið 1960, þá sem þingfréttaritari Morgunblaðsins. Eftir að þingferli hans lauk var hann formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna í hartnær 15 ár eða frá 2009-2024. Hann sat því þingflokksfundi í um 60 ár. Í formannstíð hans fyrir SES stóðu samtökin fyrir öflugu starfi, m.a. vikulegum fundum í Valhöll sem raunar tíðkast enn. Á þeim fundum er fjallað um þau mál sem voru efst á baugi hverju sinni. Á sjötta hundrað slíkra funda voru haldnir í formannstíð Halldórs.
Í viðtali sem tekið var við Halldór í tilefni af 95 ára afmæli flokksins sagði hann þetta um tíma sinn sem formaður SES: „Það var mjög gaman að gera það. Það tóku mér allir mjög vel. Við héldum vikulega fundi á miðvikudögum. Það voru tekin til meðferðar hin ólíkustu mál og þau brýnu mál sem brunnu á þjóðfélaginu á hverjum tíma. Ég var ekki var við annað en að því væri mjög vel tekið. Þessir fundir voru fjölsóttir og gaman að vinna að þeim.“ Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan fréttina.
Halldór sat einnig um langt árabil í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.
Fyrri kona Halldórs var Renata Brynja Kristjánsdóttir (þau skildu). Með henni átti hann dæturnar Ragnhildi og Stellu. Síðari kona Halldórs var Kristrún Eymundsdóttir sem lést árið 2018. Sonur þeirra er Pétur. Barnabörn Halldórs eru sex og barnabarnabörnin eru sjö.
Halldór var ávallt vakinn og sofinn yfir framgangi sjálfstæðisstefnunnar og var reglulegur gestur á skrifstofu flokksins eftir að hann lét af þingmennsku. Skrifstofa Sjálfstæðisflokksins sendir afkomendum Halldórs og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur við fráfall hans.

