16. desember 2025

Al­menningur og breiðu bök ríkis­stjórnarinnar

Það hefur verið áhugavert að hlusta á málflutning stjórnarliða sem verja nú fjárlögin og tengd mál, ekki síst fulltrúa Viðreisnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þar m.a. gagnrýnt:

- 143 milljarða útgjaldaaukningu (voru um 70 milljarðar í síðustu fjárlögum og þá var kosningaár)

- 30 milljarða skattahækkanir

- Að ekki séu lögð til hallalaus fjárlög

Sjálfstæðisflokkurinn hefur þess í stað lagt fram tillögur um hagræðingu í ríkisrekstri, sölu eigna, skattalækkanir, niðurgreiðslu ríkisskulda og hallalaus fjárlög. Þeim tillögum hefur stjórnarmeirihlutinn hafnað, öllum sem einni. Meðal tillagna má nefna:

- 3,5% hagræðingarkröfu á ríkisstofnanir

- 7,5% aðhald á aðalskrifstofur ráðuneyta

- Skúffufé ráðherra lagt af

- Lög um opinbera starfsmenn samræmd við almennan vinnumarkað

Það má gjarnan rifja hér upp að þrátt fyrir gríðarleg áföll sem við höfum glímt hér við á undanförnum árum, m.a. heimsfaraldur, jarðhræringar og stríð í Evrópu, skilaði síðasta ríkisstjórn af sér ríkissjóði með litlum halla og lágmarks skuldasöfnun. Og tók þátt í að lækka skatta um yfir 300 milljarða á tíu ára tímabili.

Er ekki verið að hækka skatta á almenning?

Þrátt fyrir að forsvarsmenn Samfylkingar og Viðreisnar hafi lofað því í aðdraganda kosninga að hækka ekki skatta á almenning – á venjulegt fólk – þarf ekki annað en að renna yfir skattatillögurnar til að sjá að þær ná til mikils meirihluta kjósenda. Meðal annars er um að ræða stórhækkuð vörugjöld á bíla, afnám samsköttunar hjóna og sambúðarfólks, kílómetragjaldið á ökutæki, hækkun krónutölugjalda umfram verðbólgumarkmið og hækkun skatta á leigutekjur sem mun hækka leiguverð og bitna á leigjendum.

Stjórnarliðar bera því við hér í þinginu að aðeins sé um að ræða aðgerðir sem bitni á „breiðu bökunum“. Að við sem mótmælum þessum skattahækkunum séum að verja þessi breiðu bök, sem geti vel borgað hærri skatta.

Ef þú, kæri lesandi, sérð þarna skattahækkun sem mun bitna á þér, getur þú dregið þá ályktun að þú sért þetta breiða bak ríkisstjórnarinnar sem getir vel greitt hærri skatta. Og þau eru bara rétt að byrja.

Greinin birtist fyrst á Vísi.

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.