Í dag er 100 ára ártíð Geirs Hallgrímssonar fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og borgarstjóra Reykjavíkur. Geir fæddist 16. desember 1925 í Reykjavík. Hann lést 1. september 1990.
Geir lauk stúdentsprófi frá MR árið 1944 og lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1948. Hann var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík 1952-1954 og Sambands ungra sjálfstæðismanna 1957-1959.
Geir var afar aðsóps- og áhrifamikill leiðtogi í íslenskum stjórnmálum um áratugaskeið á seinni hluta síðustu aldar. Hann var borgarstjóri Reykjavíkur frá 1959-1972, en ári áður en hann lét af embætti borgarstjóra tók hann sæti á Alþingi. Hann var forsætisráðherra 1974-1978, utanríkisráðherra frá 1983-1986 og seðlabankastjóri frá 1986-1990.
Geir var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins árið 1973 og gegndi embættinu í um áratug til ársins 1983. Áður var hann varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá 1971-1973. Hann lét af þingmennsku árið 1986.
Sem borgarstjóri leiddi hann uppbyggingu höfuðborgarinnar á miklum umbreytingartímum. Undir hans stjórn var lögð rík áhersla á skipulag, innviði og framtíðarsýn í borgarþróun, á tímum þegar Reykjavík var að taka skrefið frá smáborg til nútímalegrar höfuðborgar. Í borgarstjóratíð Geirs voru flestar götur Reykjavíkur malbikaðar.
Geir var þekktur fyrir prúðmennsku, festu og yfirvegun. Ríkisstjórn Geirs verður ekki síst minnst fyrir að hafa leitt landhelgisbaráttuna til lykta er Ísland færði landhelgi sína út í 200 sjómílur. Þar með lauk Þorskastríðunum.
Minning Geirs er órjúfanlegur hluti af sögu íslensks samfélags, Sjálfstæðisflokksins og Reykjavíkur.

