Sóknargjöldin voru til umræðu enn og aftur á Alþingi á dögunum, nú við atkvæðagreiðslu vegna fjárlaga. Eins og ég hef áður vakið athygli á, lögðu stjórnvöld á ný til stórlækkuð sóknargjöld. Þingmenn komu aðeins til móts við sóknirnar og lögðu til að dregið yrði úr lækkuninni. Ég minnti þingheim þá á að þjóðkirkjan væri mikilvæg grunnstoð í íslensku samfélagi og starf sóknanna væri ómetanlegt. Stanslaus ásælni stjórnvalda í sóknargjöldin, sem tilheyra sóknunum, væri óviðunandi. Ég hvatti því til þess að við kæmum skilum á sóknargjöldunum í lögbundið horf.
Þingflokksformaður Samfylkingarinnar gat þá ekki setið á sér, einu sinni sem oftar, og lýsti yfir mikilli hneykslan á því að þjóðkirkjan þyrfti að koma árlega til þingsins til að betla peninga fyrir sóknir sínar og lýsti því yfir að það væru bjartari tímar fram undan fyrir þjóðkirkjuna. Til valda væri komið fólk sem myndi styðja við bakið á þjóðkirkjunni.
Við Gumundur Ari erum efnislega ekki ósammála um mikilvægi þess að styðja við bakið á þjóðkirkjunni. Mér er þó bæði ljúft og skylt að rifja upp fyrir nýjum þingmanni og lesendum gjörðir Samfylkingarinnar varðandi sóknargjöldin. Síðasta þingvetur var ég nefnilega formaður efnahags- og viðskiptanefndar og stóð þá í þessari baráttu fyrir kirkjuna og sóknir landsins. Þar tókum við fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar okkur saman og lögðum til hækkun á sóknargjöldum. En hvernig skyldi Samfylkingin hafa tekið þeim tillögum okkar? Flokkssystkini Guðmundar Ara studdu nefnilega ekki þessa tillögu okkar. Það var nú allur stuðningurinn við þjóðkirkjuna og þeirra „blómlega starf“.
Ef við skoðum svo tillögur efnahags- og viðskiptanefndar, sem snúa að sóknargjöldunum, sjáum við að þær segja sömu sögu. Á síðasta kjörtímabili fór Sjálfstæðisflokkurinn með formennsku í nefndinni og lagði ætíð til hækkun sóknargjalda. Í ár verður sá viðsnúningur að Samfylking hefur tekið við formennsku og leggur til að sóknargjöldin haldist óbreytt milli ára, eða eiginlega lækkun þar sem fjárhæðin er ekki verðbætt. Samfylking á þrjá nefndarmenn af níu í nefndinni.
Ég vona að dómsmálaráðherra Viðreisnar komi skikk á þetta fyrirkomulag, en formaður Sjálfstæðisflokksins Guðrún Hafsteinsdóttir hafði áður sett af stað vinnu við það í dómsmálaráðuneytinu.
Eftir sem áður hvet ég stuðningsmenn kirkjunnar til að fylgjast vel með framgöngu þingmanna í garð hennar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

