Viðbrögð við skrifum mínum á þessum vettvangi hafa sjaldan verið meiri en eftir síðasta pistil, um gervigreindina og þann mikla auð sem safnast hefur á hendur örfárra einstaklinga sem stýra stærstu tæknifyrirtækjum heims. Þau komu mér á óvart en glöddu mig. Það er í mínum huga heilbrigðismerki hversu margir eru hugsi yfir þessari þróun og áhrifum þeirra á raunverulegt frelsi fólks og lýðræðið. En þeir þungu straumar sem valdið hafa umbyltingu á daglegu lífi fólks eiga sér fleiri hliðar en þær sem ég snerti á, góðar og slæmar eins og nefndi þá. Þar á meðal eru alvarlegar spurningar um áhrif á raunverulegt fullveldi ríkja.
Þjóðir sem ráða lögum innan sinna landamæra eru fullvalda. Í fullveldinu felst þó einnig frelsi þjóða til þess að undirgangast alþjóðlegar skuldbindingar eða gerast aðilar að alþjóðlegu samstarfi. Reyndar hefur í raun alltaf verið óhugsandi að reka samfélag án þess að gangast að einhverju leyti undir sameiginlegar alþjóðlegar reglur, hvort sem þær lúta að póstþjónustu, samgöngum eða viðskiptum. Tal um að þjóðir afsali sér fullveldi með því að taka þátt í alþjóðsamstarfi byggist á ákveðnum misskilningi, þvert á móti er frelsi ríkja til þess að velja að taka þátt í því ein skýrasta birtingarmynd fullveldisins, þótt í því geti falist framsal á valdi. Þess vegna eru til að mynda kröfur um að Úkraína megi ekki að ganga í Atlantshafsbandalagið álitnar vera árás á fullveldið en aðild að bæði Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu væri hugsanlega mest afgerandi staðfesting á fullveldi Úkraínu. Eins og Alexander Stubb forseti Finnlands segir: „Við vorum eina landið sem átti landamæri að Sovétríkjunum, sem gat haldið raunverulegu sjálfstæði sínu, en við glötuðum fullveldi okkar. Við gátum ekki ákveðið í hvaða klúbba við vildum ganga. Við gátum ekki gengið í ESB fyrr en árið 1995, þegar Sovétríkin voru hrunin.“
Afskipti
Á þeim tímum sem við lifum nú eru ýmsar raunverulegar ógnir við fullveldi ríkja. Dæmi um það eru stórfyrirtæki sem starfa þvert á landamæri, ekki síst bandarísku tæknifyrirtækin sem stýra samfélagsmiðlunum sem bæði tengja fólk saman og halda því uppteknu við neyslu afþreyingarefnis. Fyrr í mánuðinum tóku gildi lög í Ástralíu sem gera samfélagsmiðlafyrirtækin ábyrg fyrir því að tryggja að ungmenni undir sextán ára geti ekki skráð sig. Háar sektir liggja við því ef viðleitni fyrirtækjanna til þess að framfylgja lögunum er álitin ófullnægjandi. Gera má ráð fyrir að slíkar sektir verði gefnar út og verður þá fróðlegt hvernig áströlskum yfirvöldum gengur að innheimta þær úr höndum stórfyrirtækjanna.
Nýleg dæmi lofa ekki góðu. Nýlega var lögð 120 milljóna evra sekt á X, samfélagsmiðil Elons Musk. Tilefni sektarinnar er meðal annars að X býður hverjum sem er að kaupa auðkenni sem gefur til kynna að fyrirtækið hafi sannreynt að tiltekinn reikningur tilheyri raunverulega þeirri manneskju eða lögaðila sem tilgreindur er sem eigandi. Vandinn er að eftir að Musk eignaðist fyrirtækið var kerfinu breytt þannig að í stað þess að það væri þjónusta við notendur breyttist það í tekjustraum fyrir fyrirtækið. Auðkennið sem áður hjálpaði fólki að greina plat frá alvöru varð algjörlega gagnslaust og hugsanlega verra en ekkert því nú getur hver sem er látið fyrirtækið sjálft gefa út viðurkenningu á fölsku flöggunum sem siglt er undir.
Viðbrögðin við sektinni hafa ekki verið neitt smáræði. Musk hefur hótað öllu illu og formælt Evrópusambandinu sem aldrei fyrr, svo vægt sé til orða tekið. Öllu umhugsunarverðari eru viðbrögð allra æðstu valdamanna Bandaríkjanna. Trump forseti, Vance varaforseti og Rubio utanríkisráðherra hafa allir gefið út harkalegar yfirlýsingar í tilefni af sektarákvörðuninni. Þegar forsetinn var spurður út í sektina hafði hann ekki fengið kynningu á málinu en treysti sér þó til þess að segja að hún væri andstyggileg og bætti við að Evrópa „þyrfti að fara varlega.“
Valkvæðar áhyggjur
Allir vita að bandarísk stjórnvöld leggja ofuráherslu á að tryggja að bandarísku tæknifyrirtækin fái að starfa án nokkurra afskipta yfirvalda um heim allan, en sérstaklega þó í Evrópu. Orðalag um mikilvægi tjáningarfrelsis Evrópu í hinu furðulega þjóðaröryggisskjali sem birt var 4. desember sl. snýst meðal annars um að koma í veg fyrir að ríki Evrópu komi böndum útbreiðslu bandarísku samfélagsmiðlanna. Af einhverjum ástæðum virðast núverandi valdhafar í Washington ekki hafa áhyggjur af málfrelsi í Rússlandi, Kína og Sádi-Arabíu en einblína á þau ríki þar sem þau réttindi eru einna rótgrónust. Þau Evrópusambandslönd sem mælast með minna frelsi til tjáningar eru þó líklega ekki áhyggjuefni núverandi valdhafa í Bandaríkjunum eins og Ungverjaland, Slóvakía og Grikkland. Áhyggjurnar virðast býsna valkvæðar.
Fyrir þau okkar sem er umhugað um fullveldi ríkja hlýtur staða bandarísku tæknifyrirtækjanna að vera ofarlega í huga. Og það hlýtur að vekja spurningar að æðstu ráðamenn í heimaríki fyrirtækjanna grafi undan fullveldisrétti annarra ríkja með því að hafa afskipti af og í hótunum vegna lögmætra stjórnvaldsákvarðana og reglna sem gilda jafnt yfir alla.
Það er því í ýmis horn að líta fyrir okkur fullveldissinnana
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

