11. desember 2025

Skattahækkanir í skóinn

Ríkisstjórnin hefur lagt kapp á hinar ýmsu kynningarbrellur síðan hún tók við völdum fyrir tæpu ári og eru áróðursútspil hennar orðin jafn mörg og eyjarnar á Breiðafirði. Leikritið hófst strax við stjórnarmyndunina þegar hrópað var innan úr samningaviðræðum að ný ríkisstjórn „tæki við verra búi“ en búist hafði verið við. Slíkar fullyrðingar eiga sér enga stoð í raunveruleikanum en ganga má út frá því að það útspil hafi haft þann tilgang einan að undirbúa jarðveginn fyrir skattahækkanir ríkisstjórnarinnar, enda ljóst að þær yrðu þvert á gefin kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna um „engar skattahækkanir á venjulegt fólk“.

Þrátt fyrir þau ítrekuðu áföll sem dundu á íslensku efnahagslífi á síðustu árum skilaði síðasta ríkisstjórn ríkissjóði af sér með litlum halla og skuldasöfnun í lágmarki. Hefði vilji ríkisstjórnarinnar staðið til þess að skila hallalausum fjárlögum hefði það verið hægt. Í stað þess kýs ríkisstjórnin að auka útgjöld um 143 milljarða. Til að setja þann mikla útgjaldaauka í samhengi mætti fyrir sömu fjárhæð fjármagna ekki bara Fljótagöng heldur einnig Fjarðarheiðargöng, Mjóafjarðargöng og Lónsheiðargöng. Það ætlar ríkisstjórnin sér þó ekki að gera heldur smyrja útgjaldaaukanum yfir ýmislegt misþarft í ríkisrekstrinum, auka hallann og fjármagna svo herlegheitin með sköttum á fólk og fyrirtæki.

Stjórnarsveinarnir hafa því mætt til Alþingis einn af öðrum, Skattastaur fyrstur og Gjaldagaur annar, og bera í poka sínum yfirgengilegar skattahækkanir í formi stórhækkaðs vörugjalds á bíla, afnám samsköttunar hjóna og sambúðarfólks, álagningu kílómetragjalds á allar tegundir bíla, hækkun jöfnunargjalds á raforku, hækkun krónutölugjalda um 3,7%, hækkun fjármagnstekjuskatts á leigutekjur, streymisveituskatt o.fl. Þá stóð til að færa landsmönnum umfangsmiklar breytingar á erfðafjárskatti en stjórnarmeirihlutinn hefur dregið þær fyrirætlanir til baka í bili. Eina skattalækkunin sem ríkisstjórnin hefur boðað er lækkun innviðagjalds á skemmtiferðaskip, vanhugsaða skattahækkun síðustu ríkisstjórnar, og er þeim til hróss.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram tillögur um hvernig megi hagræða í rekstri ríkisins, selja eignir sem engin þörf er á að séu í eignasafni hins opinbera og skila ábatanum til fólksins í landinu með skattalækkunum og hallalausum ríkissjóði. Þessum tillögum hafnaði stjórnarmeirihlutinn hins vegar með öllu.

Að ganga til kosninga er ekki ýkja öðruvísi en að skrifa óskalista til jólasveinsins; maður vonar, og bíður með öndina í hálsinum, að staðið verði við loforðin eftir að hafa verið svo ósköp þægur. En miðað við óskirnar sem jólasveinarnir við ráðherraborðin lofuðu að efna fyrir kosningar er ljóst að landsmenn munu fá kartöflu í skóinn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.