Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:
Kostnaður á enn eftir að hækka og ljóst er að endurbyggingin er eitt mesta klúður í byggingarsögu Reykjavíkurborgar.
Heildarkostnaður við endurbyggingu leikskólans Brákarborgar við Kleppsveg er nú kominn í 3.202 milljónir króna. Kostnaðurinn á enn eftir að hækka þar sem framkvæmdir standa enn yfir við leikskólann en áætlað er að þeim ljúki ekki fyrr en í marz nk. Ljóst er að endurbyggingin er eitt mesta klúður í byggingarsögu Reykjavíkurborgar.
Árið 2020 samþykkti meirihluti Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna að kaupa hús að Kleppsvegi 150-152 í því skyni að breyta þeim í leikskóla Kaupverð var 642 milljónir króna og áætlað að kostnaður við breytingur yrði um 600 milljónir að auki.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vöruðu við kaupunum. Bentu þeir á að húsnæðið væri í slæmu ástandi, endurbætur yrðu mjög dýrar og því yrði endanlegur kostnaður afar mikill.
Leikskóli var opnaður í húsinu haustið 2022 þótt framkvæmdir stæðu þá enn yfir. Við vígsluna hlaut borgin ,,Grænu skófluna“ fyrir verkefnið frá samtökum, sem borgin stendur sjálf að. Við afhendinguna var að húsið væri byggt með framúrskarandi sjálfbærum hætti og verðug fyrirmynd fyrir endurbyggingu eldri mannvirkja í framtíðinni.
,,Aldrei hætta að þora“
Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, hreykti sér af vel heppnaðri framkvæmd í Twitter-færslu. Þar kom fram að varað hefði verið við því að framkvæmdin yrði áhættusöm og dýr. ,,Aldrei hætta að þora!“ stóð í færslu Dags. Óhætt er að fullyrða að áðurnefndar hrakspár hafi ræst.
Þrátt fyrir að byggingin fengi sjálfbærniverðlaun, var hún því miður ekki sjálfbærari en svo að hún hélt ekki uppi eigin þaki. Fljótlega eftir opnun leikskólans komu í ljós sprungur í hleðsluveggjum. Í ljós kom að byggingin fullnægði ekki opinberum jarðskjálftastöðlum, hvorki fyrir né eftir framkvæmdir. Húsið var rýmt og ráðist í víðtækar lagfæringar og endurbætur á því. Sú lagfæring stendur enn yfir og mun ekki ljúka fyrr en á næsta ári.
Heildarstærð fasteignanna við Kleppsveg er 2.097 fermetrar. Gert hefur verið ráð fyrir því að þar af verði leikskólastarfsemi í 1.064 fermetrum en kjallari undir húsinu, sem er um 1.200 fm., verði nýttur til annarrar starfsemi, t.d. undir geymslur. Áformað er að um 120 nemendur verði í leikskólanum. Ljóst er að um feikidýrt húsnæði er að ræða, hvort sem miðað er við fermetraverð eða kostnað pr. leikskólarými.
Ótal gallar voru á hönnun og endurbyggingu leikskólans samkvæmt skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um málið, sem kom út í maí sl. Skýrslan er áfellisdómur yfir stjórnsýslu borgarinnar og þeim stjórnmálamönnum, sem bera ábyrgð á verkefninu.

Gífurlegur kostnaður
Áfallinn heildarkostnaður vegna endurbyggingar Brákarborgar nemur 3.202 milljónum króna á núgildandi verðlagi samkvæmt svari skrifstofu framkvæmda og eignaumsjónar við fyrirspurn minni um málið. Þar af eru 865 milljónir vegna kaupa á húsinu á sínum tíma. Upphaflegur endurbyggingarkostnaðar nemur 1.512 milljónum en kostnaður vegna lagfæringa og endurbóta eftir að leikskólinn var rýmdur, nemur 501 milljón Að auki nemur kostnaður vegna jaðarsvæða, bílastæða og umferðaröryggisaðgerða 129 milljónum. Þá nemur kostnaður vegna tímabundins flutnings leikskólastarfseminnar í Ármúla meðan húsið við Kleppsveg er lagfærð, 195 milljónum króna.
Vonandi tekst að ljúka framkvæmdum við Brákarborg án mikils viðbótarkostnaðar og gera leikskólann vel úr garði. Þó verður að spyrja að leikslokum í þeim efnum. Ljóst er að verkefnið er víti til varnaðar fyrir borgarkerfið en ekki síður borgarstjórn. Upplýst hefur verið að á verktíma voru stjórnendur hjá borginni undir miklum pólitískum þrýstingi að ljúka framkvæmdum sem fyrst, sem kom niður á gæðum verksins. Ljóst er að sá þrýstingur hefur kostað reykvíska skattgreiðendur gífurlegt fé.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. desember 2025

