Fjármála- og efnahagsráðherra boðaði nýlega enn eina skattahækkun núverandi ríkisstjórnar, sem virðist ekki ætla að verða eftirbátur systurstjórnar sinnar frá 2009-2013 í þeim efnum. Sú nýjasta er nefnilega hækkun á erfðafjárskatti, sem felur í sér að skattstofn erfðafjárskatts vegna „lands“ skuli miða við markaðsverð. Það sem gerir þessa skattahækkun hins vegar sérstaklega vanhugsaða er að það er algjörlega óvitað á hverja hún leggst. Samkvæmt frumvarpinu leggst hækkunin á „lönd“ án þess að það sé útskýrt nánar. Það er nefnilega ansi margt sem telst til „lands“ í lagalegum skilningi. Sem dæmi teljast sumarbústaðalönd, bújarðir og aðrar fasteignir til lands. Allt framangreint eru fasteignir sem bera fasteignamat. Er ráðherra að boða skattahækkun á allar fasteignir á Íslandi eins og lítur út fyrir í frumvarpi hans? Ég spurði fjármálaráðherra einmitt að því í óundirbúnum fyrirspurn í vikunni hvaða fasteignir væru hér undir.
Svörin voru hins vegar engin og báru þess skýrt merki að ráðherrann skildi ekki eigin frumvarp, þar sem hann hélt því meðal annars fram að skattahækkunin fæli í sér „mikla einföldun“ á regluverkinu.
Aukið vesen í boði ríkisstjórnarinnar
En fyrir hvern er þessi mikla einföldun? Ekki er hún fyrir sýslumannsembættið, en í umsögn sýslumannaráðs við frumvarpið finnur ráðið skattahækkunarhugmynd ráðherrans allt til foráttu. Í umsögninni kemur m.a. fram að „ljóst er að með breytingatillögunni er verið að víkja frá meginreglu laganna um að fasteignir skuli taldar fram á fasteignamatsverði“. Bætir sýslumannaráðið svo í og fullyrðir að frumvarpið muni „óhjákvæmilega gera álagningarferlið flóknara og tímafrekara“, að hætta sé á að ferlið við ákvörðun skattstofns verði „ógagnsætt, skapi réttaróvissu og að framkvæmd þess verði matskennd sem eykur líkur á ósamræmi við álagningu erfðafjárskatts“ og að nær öruggt sé „að kostnaður aukist frá því sem nú er, bæði fyrir embætti sýslumanna sem og erfingja“.
Þegar sá sem annast álagningu erfðafjárskatts skilur hvorki upp né niður í hækkun skattsins, þá er eðlilegt að staldra aðeins við.
Fúll á móti – allir sem einn
Ríkisstjórnin er hins vegar ekki á þeim buxunum að laga frumvörp sín þegar ágallar koma í ljós, en þrátt fyrir þá augljósu vankanta sem eru á frumvarpi ráðherrans var engan bilbug á honum að finna þegar hann var inntur svara við gagnrýni á frumvarpið og sakaði gagnrýnendur sína um misskilning og skáldskap í stað þess að svara þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Þessi hegðun ráðherra er hins vegar því miður ekki bundin við fjármála- og efnahagsráðherra, heldur virðist þetta stef vera gegnumgangandi í viðbrögðum ráðherra ríkisstjórnarinnar vegna gagnrýni á vanhugsuð og illa unnin frumvörp þeirra.
Sem dæmi má nefna viðbrögð félags- og húsnæðismálaráðherra þegar hún var gagnrýnd fyrir slæleg vinnubrögð við lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem hún lét hjá líða að framkvæma mat á þeim fyrirhugaða kostnaði sem fellur á sveitarfélögin líkt og lög gera kröfu um. Í stað þess að taka gagnrýnina til sín ákvað ráðherrann að væna mann og annan um að vera á móti fötluðu fólki. Sams konar takta sýndi ríkisstjórnin þegar skattar á sjávarútveginn voru hækkaðir í frumvarpinu sem þykir ein mesta hrákasmíð síðari tíma, líkt og stjórnarandstæðingar og sérfræðingar í sjávarútvegsmálum bentu á. Þessu svöruðu ráðherrarnir með því að saka gagnrýnendur sína um að ganga erinda „sægreifa“ og vinna gegn þjóðinni.
Þetta virðist vera línan sem lögð hefur verið í stjórnarráðinu: Þegar þú ert gripinn með buxurnar á hælunum, gargaðu bara sem hæst og sakaðu gagnrýnendurna um eitthvað misjafnt.

