Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:
Tillögur Sjálfstæðisflokksins myndu bæta fjárhag borgarinnar um marga milljarða króna ef þær næðu fram að ganga.
Rekstur Reykjavíkurborgar verður áfram ósjálfbær á árinu 2026 og skuldir stórauknar samkvæmt nýsamþykktri fjárhagsáætlun. Ljóst er að meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Vinstri grænna og Flokks fólksins hefur ekki tök á fjármálum borgarinnar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram 23 breytingartillögur við frumvarp að fjárhagsáætluninni á fundi borgarstjórnar 2. desember 2025. Allar eru þær til þess fallnar að bæta fjárhag borgarinnar með einum eða öðrum hætti. Ef þær næðu fram að ganga, myndu þær skila mörgum milljörðum króna, annað hvort með sparnaði eða tekjuauka. Skal nú tæpt á efni þessara tillagna.
Fækkun borgarfulltrúa
- Borgarstjórn skori á Alþingi að breyta lagaákvæði um fjölda borgarfulltrúa svo unnt verði að fækka þeim á ný.
- Ekki verði ráðist í frekari fjárfestingar í áhöldum, tækjum og hugbúnaði á þróunar- og nýsköpunarsviði borgarinnar, nema sýnt sé fram á að þær skili rekstrarhagræðingu og betri þjónustu. Með því lækkar kostnaður um 1.525 milljónir króna.
- Ýmsum fjárfestingum í miðborg verði frestað, m.a. vegna torggerðar, lagningu vistgatna og göngugatna, samtals um 400 milljónir króna.
- Fjárfestingum vegna endurbyggingar Grófarhúss verði frestað að hluta eða samtals um 100 milljónir króna.
- Fjárfestingu vegna þéttingar byggðar verði frestað, samtals um 90 milljónir króna.
- Spretthópi verði falið að skila tillögum um breytingar á fjárfestingaráætlun, sem feli í sér að framkvæmdum verði flýtt við skólabyggingar, þar sem framkvæmdir hafa staðið í sautján mánuði eða lengur.
Minnka þarf yfirbyggingu
- Allsherjar stjórnsýsluúttekt verði gerð á borgarkerfinu og veruleg hagræðing knúin fram í rekstri.
- Ráðningarbann verði sett á í miðlægri stjórnsýslu út árið 2026. Yfirbygging er of mikil hjá borginni.
- Ráðist verði í tafarlausar aðgerðir í því skyni að lækka veikindahlutfall starfsfólks.
- Mannréttindaskrifstofa borgarinnar verði lögð niður í hagræðingarskyni og verkefni hennar sameinuð velferðarsviði.
- Stafrænt ráð verði lagt niður og verkefni þess færð undir borgarráð.
- Hagrætt verði á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara um a.m.k. 100 milljónir króna.
- Upplýsingafulltrúum borgarinnar verði fækkað og hagrætt á skrifstofu samskipta og viðburða um a.m.k. 100 milljónir króna.
- Kostnaður við móttökur verði lækkaður um a.m.k. tíu milljónir króna.
- Kostnaður verði lækkaður við fundahald borgarstjórnar, m.a. með því að funda sem mest á dagvinnutíma.
Sala eigna – lækkun skulda
- Tekjur Reykjavíkurborgar verði hækkaðar með stórauknum lóðaúthlutunum fyrir fjölbreytilegar gerðir íbúðarhúsnæðis. Horft verði til Úlfarsárdals, Kjalarness, Örfiriseyjar og Geldinganess í þessu skyni.
- Aukin áhersla verði lögð á sölu lóða fyrir fjölbreytilega atvinnustarfsemi.
- Ljósleiðarinn ehf. verði seldur og andvirðið nýtt til að lækka skuldir og vaxtakostnað.
- Carbfix hf. verði selt og andvirðið notað til að lækka skuldir og vaxtakostnað.
- Malbikunarstöðin Höfði hf. verði seld og andvirðið nýtt til að lækka skuldir og vaxtakostnað.
- Lagt er til að bílastæðahús borgarinnar, sem rekin eru af Bílastæðasjóði, verði seld en tryggt að þar verði áfram rekin bílastæðaþjónusta.
- Fasteignasafn Reykjavíkurborgar verði greint í því skyni að losna við rekstur fasteigna, sem nýtast ekki grunnþjónustu borgarinnar.
- Sorphirða í Reykjavík verði boðin út í áföngum.Ofangreindar tillögur Sjálfstæðisflokksins voru lagðar fram við afgreiðslu fjárhagsáætlunar borgarinnar 2. desember sl. Ljóst er að með samþykkt þeirra hefði fjárhagnum verið snúið til betri vegar og viðvarandi skuldasöfnun hætt. Skemmst er frá því að segja að borgarfulltrúar vinstri meirihlutans felldu allar tillögurnar.
Ljóst er að mikið verk bíður næstu borgarstjórnar við að koma fjárhagnum á réttan kjöl eftir langt tímabil óráðsíu og skuldasöfnunar. Til þess þarf að endurskoða allan rekstur borgarinnar og ráðast í víðtækan sparnað og hagræðingu. Í borgarstjórnarkosningum í maí nk. gefst Reykvíkingum kærkomið tækifæri til að gera breytingar á stjórn borgarinnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. desember 2025

