Það sperrir kannski enginn eyrun lengur þegar nefnd eru klassísk stef eins og „hagfellt rekstrarumhverfi fyrirtækja“. Það er skiljanlegt að mörgum þyki lítil þörf á að hlusta af athygli á eitthvað sem margir líta á sem samfélagslegan sannleik sem sé ekki lengur þörf á að passa upp á. Stefin verða fljótt samdauna pólitískri síbylju og við stjórnmálafólkið þurfum jafnvel sjálf að minna okkur á hvað þetta þýðir.
Á síðustu kjörtímabilum var margt gert til að tryggja gott rekstrarumhverfi og lækka álögur á atvinnulífið. Sérstök gangskör var gerð að því að efla umhverfi nýsköpunar og hvetja til hennar ásamt því að tengja betur saman háskólana og nýsköpunarfyrirtæki. Gróskan sem verður til þar í dag er enda verðmæti morgundagsins.
Allt tal flokkanna sem nú eru í ríkisstjórn hefur hins vegar miðast við það að öflugt atvinnulíf sé sjálfsagður hlutur. Stjórnvöldum þykir það í orði svo sem gott og blessað, en virðast fyrst og fremst líta til þess hvar borð er fyrir báru til að kreista þá stráin, ef það drýpur ekki af þeim.
Í fjárlögum næsta árs sem rædd voru í þingsal kennir ýmissa slíkra grasa. Skattahækkanir eru í kortunum og ríkið ætlar bersýnilega að sækja dýpra ofan í vasa einstaklinga og fyrirtækja og minnka rými þeirra til framtaks og verðmætasköpunar.
Á meðan hrannast óveðursskýin upp yfir helstu útflutningsgreinunum, sjávarútvegurinn glímir við aflabrest, hækkandi kostnað, tolla og aukna gjaldtöku frá hinu opinbera á sama tíma. Blikur eru á lofti í ferðaþjónustunni en samt er þar helst horft til þess hvar ríkið getur sótt aukatekjur í stað þess hvernig er hægt að styðja við.
Það eru ekki horfur á hagvexti að neinu ráði, að verðbólgan gefi eftir eða forsendur verði til að bæta kjör landsmanna á næstu misserum. Stjórnvöld horfa frekar til þess að rýra kjör, t.a.m. með stórhækkun vörugjalda á bíla, hækkun á skatti á leigutekjur, afnámi samsköttunar, erfðaskatti og fleira sem verður til umræðu á þinginu næstu daga – þvert á fögur fyrirheit um að skattar yrðu ekki hækkaðir á venjulegt fólk.
Það er varasamt að ásælast allt sem vel gengur með þessum hætti og einblína á samneysluna. Heilbrigt atvinnulíf skapar atvinnu, hærri laun, fleiri tækifæri, hagvöxt og þannig meiri tekjur í ríkiskassann, sem ríkisstjórninni er svo umhugað um, og svigrúm til að takast á við áföll þegar þau dynja yfir.
Áhersla síðustu kjörtímabila á heilbrigði hagkerfisins hefur með öllu horfið á því tæpa ári síðan ríkisstjórnin tók við völdum og aðlögunarhæfni hagkerfisins snarminnkað.
Atvinnulíf er dálítið eins og engi. Sumt blómstrar, annað fölnar, það árar misjafnlega, en það er jarðvegurinn sem skiptir máli. Það er óhugnanlegt að sjá hvað gerist, og hversu hratt, þegar ekki er hlúð að honum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

