2. desember 2025

Ríkis­stjórn Krist­rúnar Frosta­dóttur grefur undan EES

Á dögunum lagði Evrópusambandið verndartolla á iðnað frá EES-löndunum Íslandi og Noregi. Þjóðir sem eru ekki aðeins nánustu vinaþjóðir þeirra, heldur eru hluti af innri markaði sambandsins gegnum EES-samninginn. Tollar ESB voru yfirvofandi í 11 mánuði, u.þ.b. allan starfstíma ríkisstjórnarinnar. En þrátt fyrir tíðar heimsóknir til Brussel og útsýnisferðir um landið með helstu ráðamenn ESB, var þetta niðurstaðan. Aðgerðin er skýrt brot á EES-samningnum og við sjálfstæðismenn munum fylgja því fast á eftir að við sækjum rétt okkar gagnvart ESB.

Óprúttnir stjórnmálamenn, sem voru þó í stafni þegar þessi ákvörðun skellur á okkur, hafa m.a. sakað stjórnarandstöðuna um að grafa undan EES-samningnum. Því finn ég mig knúna til að benda á hið augljósa. Á Íslandi er ríkisstjórn sem grefur undan EES-samningnum hvern dag sem hún situr. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur sett aðild að ESB aftur á dagskrá. Forsætisráðherra og helstu ráðamenn þjóðarinnar vilja að Ísland gangi í ESB. Og hvað verður um EES-samninginn ef sú vegferð verður farin?

Embættismönnunum í Brussel er þetta fullljóst. Viðsemjendur þeirra eru stjórnmálamenn sem vilja segja upp EES-samningnum og ganga í ESB. Eins og fulltrúi ESB benti okkur Íslendingum á á fundi í Strasbourg á dögunum, hefur viðlíka framkoma ekki hent okkur allan samningstímann. Er tímasetningin þá tilviljun?

Eftir að ESB beitti Ísland þessum órétti, hvatti ég til þess að utanríkisráðherra skrifaði ekki undir frekari samninga eða yfirlýsingar við ESB. Það væru röng skilaboð við þessar aðstæður. Hún tilkynnti svo um að undirritun varnarsamkomulags við ESB yrði frestað. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum velt því upp að við þurfum að hugsa vel og vandlega um næstu skref í EES-samstarfinu, umgjörðina um okkar mikilvægast viðskiptasamning. Þar skipta tímasetningar miklu máli. Vonandi getum við átt yfirvegað samtal um það á vettvangi stjórnmálanna, en það má öllum vera það fullljóst hverjir það eru sem vilja út úr EES.

Greinin birtist fyrst á Vísi.

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.