Parkinson-lögmálið var sett fram á sjötta áratug síðustu aldar til að skýra sífellda útþenslu og ofvöxt opinberra skrifstofukerfa.
Lögmálið er einfalt í sjálfu sér. Vinna við verkefni eykst uns hún nær yfir þann tíma, sem er til ráðstöfunar. Verkefni hafa tilhneigingu til að þenjast út uns þau fylla upp í tímamörkin, jafnvel þótt þeim mætti ljúka á mun skemmri tíma. Samkvæmt lögmálinu er ekki samhengi milli fjölda starfsmanna og umfangs fyrirliggjandi verkefna.
Annað lögmál Parkinsons kveður á um útgjöld og eyðslu. Samkvæmt því hafa útgjöld tilhneigingu til að hækka í samræmi við fjárveitingar. Opinber kerfi hafa einnig tilhneigingu til að þenjast út án samræmis við þau störf, sem þar eru unnin. Skriffinska og starfsmannafjöldi hjá opinberum stofnunum hefur tilhneigingu til að aukast um nokkur prósent á ári, án tillits til þess hve mikil vinnan er, og hvort raunveruleg þörf sé fyrir hana eða ekki.
Starfsmenn skapa hver öðrum ný verkefni, ekki síst með auknum fundahöldum og skýrsluskrifum. Þegar viðbótarverkefnin eru nálægt því að vaxa mönnum yfir höfuð fá þeir fleiri starfsmenn sér til hjálpar.
Fjölgun borgarfulltrúa
Parkinson-lögmálið gagnast til að skýra af hverju hið opinbera hefur þanist út á undanförnum áratugum. Borgarkerfið er nærtækt dæmi þar sem hlutfall yfirstjórnar af heildinni er afar hátt.
Borgarfulltrúum í Reykjavík var fjölgað úr 15 í 23 eða um 53% fyrir nokkrum árum. Nú vinnur 31 kjörinn fulltrúi við stjórn borgarinnar að meðtöldum varaborgarfulltrúum. Þessi mikla fjölgun kjörinna fulltrúa hefur leitt af sér margvíslegan kostnaðarauka og óhagræði. Fjölgunin var knúin fram með breytingum á sveitarstjórnarlögum, sem þingmeirihluti Samfylkingar og VG beitti sér fyrir árið 2011. Engin þörf var fyrir umrædda fjölgun og augljóst er að hún hefur ekki stuðlað að bættum vinnubrögðum í borgarstjórn.
Ákvörðunarlögmálið
Svokallað ákvörðunarlögmál er mikið notað hjá ríki og borg en það hljómar svo: Ef þú kemst ekki hjá því að taka ákvörðun, skaltu stofna nefnd.
Hjá Reykjavíkurborg eru starfandi rúmlega níutíu vinnuhópar samkvæmt yfirliti frá því í júlí sl. Ýmsa hópa vantaði á yfirlitið og að auki var ekki gert ráð fyrir starfshópum innan borgarfyrirtækja, sem einnig eru hluti af borgarkerfinu. Því má reikna með að starfshópar borgarinnar séu vel á annað hundrað talsins.
Skipun starfshópa hjá Reykjavíkurborg er ómarkviss og tilgangurinn oft óljós. Þessir hópar halda þó marga fundi þar sem skrafað er um viðkomandi málefni. Pappírsframleiðslan er mikil og að lokum senda hóparnir frá sér langar skýrslur með tillögum, sem ekki er þó víst að komist til framkvæmda.
Vinstri meirihlutinn í borgarstjórn stofnar gjarnan starfshópa um málefni, sem honum tekst ekki að leysa. Þannig er hægt að tefja ákvarðanatöku eða aðgerðir í viðkomandi málaflokki í marga mánuði eða ár. Á meðan er hægt að segja að verið sé að vinna í málinu því það sé til meðferðar í starfshópi.
Orðagjálfur í stað aðgerða
Stundum er tíma og fé beinlínis sóað með því að vísa málum til tímafrekrar úrvinnslu í borgarkerfinu. Óviðunandi ástand skiptistöðvarinnar í Mjódd er dæmi um slíkt mál. Allt frá árinu 2016 hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins flutt skýrar tillögur um úrbætur á skiptistöðinni. Tillögurnar hafa verið felldar eða vísað fram og aftur um borgarkerfið af hverjum vinstri meirihlutanum á fætur öðrum. Síðast í september sl. var tillögu undirritaðs um aðkallandi viðgerðir á biðsvæði skiptistöðvarinnar vísað til sérstaks stýrihóps, sem virðist hafa verið stofnaður um málefni Mjóddarinnar. Í stað þess að ráðast í viðgerðir ákvað meirihlutinn að halda áfram skrafi og fundahöldum um málið.
Mikill kostnaður er við endalaus fundahöld og skýrsluskrif í borgarkerfinu. Þessi kostnaður, sem er að verulegu leyti óþarfur, er lítt eða ekki sýnilegur yfirstjórn borgarinnar, hvað þá skattgreiðendum. Gera þarf gangskör að því að draga fram allan kostnað við fundahöld og skýrsluskrif hjá hinu opinbera og upplýsa skattgreiðendur um hann.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. nóvember 2025.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykavík.

