2. desember 2025

Bregðumst ekki börnunum

Fíknivandi barna er sjúkdómur sem hefur alvarlegar afleiðingar, ekki aðeins fyrir börnin sjálf heldur einnig fjölskyldur þeirra og samfélagið allt. Hvert barn sem lætur lífið af völdum sjúkdómsins er barni of mikið. Nauðsynlegt er að nálgast fíkn barna og ungmenna eins og aðra alvarlega sjúkdóma, af ábyrgð, með samúð og lausnamiðaða hugsun að leiðarljósi. Til þess þarf að tryggja aðgengi að fjölbreyttum úrræðum, hér heima og erlendis, og að fjármagn fylgi þeim sem þurfa að leita sér aðstoðar.

Nýlega spurði ég heilbrigðisráðherra um fjölda umsókna til Sjúkratrygginga Íslands síðastliðin fimm ár um meðferð við fíkn erlendis. Svarið er sláandi í ljósi þeirrar biðar sem margir sæta eftir meðferðarúrræðum hér á landi en frá árinu 2020 hafa mest aðeins átta einstaklingar á ári fengið greiðslur frá Sjúkratryggingum til að sækja sér meðferð erlendis. Þá segir í svari ráðherra að „ekki séu fordæmi fyrir því að samið sé um heilbrigðisþjónustu erlendis ef meðferð er í boði hér á landi, en aðeins eru í gildi samningar um heilbrigðisþjónustu erlendis ef um er að ræða læknisfræðilega brýna meðferð sem ekki er unnt að veita hér á landi“.

Ekki er laust við að áleitnar spurningar vakni. Er það virkilega mat ráðherrans og hennar ráðuneytis að vímuefnavandi barna og fullorðinna sé ekki læknisfræðilega brýn meðferð, eða telur ráðherra að tækt sé að veita öllum þeim sem á þurfa að halda viðhlítandi brýna læknisfræðilega meðferð hér heima? Hvers vegna hafa þá foreldrar barna þurft að leita út fyrir landsteinana eftir nauðsynlegri aðstoð?

Við vitum að vímuefnaneysla ungs fólks getur haft alvarlegar líkamlegar og andlegar afleiðingar í för með sér. Okkur er ekki stætt á því að bíða aðgerðalaus eftir því að kerfið hér innanlands verði í stakk búið til að veita alla nauðsynlega meðferð. Aðgerða er þörf svo unnt sé að grípa inn í áður en það er orðið of seint. Forvarnir, snemmtæk íhlutun og meðferð við fíkn, hvort sem er hér heima eða erlendis, geta bjargað mannslífum.

Ef nauðsynlegt er að senda börn og ungmenni í meðferð utan landsteinanna, þá ber Sjúkratryggingum Íslands og íslenska ríkinu að standa straum af þeim kostnaði og ríkisstjórninni að forgangsraða fjármunum í þessa þágu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.