1. desember 2025

Gervifrelsi

Nánast allar hækkanir á bandarískum hlutabréfamarkaði undanfarið ár eru til komnar vegna örfárra risastórra tæknifyrirtækja og stærstan hluta mælds hagvaxtar þar í landi á sama tímabili má rekja til fordæmalausrar fjárfestingar í gagnaverum sem ætlað er að knýja gervigreindarbyltingu. Hvert þessi þróun kemur til með að leiða er ómögulegt að spá um. Á öðrum endanum er sýn um að tæknin muni leysa stóran hluta starfa af hendi og hundruð milljóna manna frelsast undan streitu og vinnuálagi. Í huga margra er þó ekki einu sinni þessi draumsýn eftirsóknarverð heldur fyrirkvíðanleg. Til eru margir sérfræðingar sem sjá fyrir sér að gervigreindarþróunin geti leitt til raunverulegs skaða fyrir mannkynið, og eins telja ýmsir að tæknin á bak við gervigreindina sé verulega ofmetin nema sem framúrskarandi hermikráka, en ólíkleg til þess að öðlast innsæi og þann skilning sem er forsenda sköpunar og nýrra uppgötvana. Jákvæðar hliðar tækninnar eru auðvitað fyrir hendi og efni í annan pistil.

Eins og löngum er erfitt að spá um framtíðina og ekki ætla ég að hætta mér út á þá braut í þessum skrifum. Það eru nefnilega nægar ástæður til þess að velta fyrir sér samtíðinni og þeim áhrifum sem þessi öra tækniþróun hefur nú þegar haft, bæði samfélagslega og efnahagslega. Við stöndum nú þegar frammi fyrir margvíslegum aðkallandi spurningum og varhugaverðri þróun sem stjórnmálunum hefur gengið ákaflega illa að finna svör við enn sem komið er.

Samfélagið í heild njóti góðs af

Auður þeirra einstaklinga sem standa efst í pýramída efnahagslífs heimsins hefur á undanförnum árum vaxið gríðarlega. Fyrir þrjátíu árum námu eignir ríkasta manns heims, Bills Gates, minna en 13 milljörðum dala en nú eiga nokkur hundruð meiri eignir en því nemur og ríkasti maður í heimi, Elon Musk, er talinn eiga nálægt 400 milljörðum dala. Þótt við hægrimenn trúum því innilega að góðum árangri við að mæta þörfum markaðarins megi fylgja efnahagsleg velsæld, þá er mikilvægt að muna að tilgangurinn með frjálsu markaðshagkerfi er ekki að gera örfáum einstaklingum kleift að auðgast algjörlega takmarkalaust heldur að samfélagið í heild njóti góðs af þeim ábata sem frjálst framtak einstaklinga getur borið með sér. Við sem skilgreinum okkur sem kapítalista ættum að hafa áhyggjur af því að þróun undanfarinna ára í heiminum sé líkleg til þess að grafa undan tiltrú á frjálst markaðshagkerfi. Þá er mikilvægt að minna á að helsta forsenda þess að markaðsfrelsið skili almenningi ábata er að á þeim vettvangi ríki ætíð hörð en sanngjörn samkeppni, sem er þó gjarnan það sem risar á markaði reyna eftir fremsta megni að komast hjá.

Nýlegur samningur forstjóra Teslu getur skilað honum þúsund milljörðum dala á tíu ára tímabili. Þetta er upphæð sem er svipuð og árleg útgjöld Bandaríkjanna til hermála og nálgast það að vera þriðjungur árlegrar landsframleiðslu Kanada. Talan er svo stór að það er nánast ómögulegt að ná utan um hana, en til að setja hugmyndina í eitthvert samhengi má velta fyrir sér hver yrðu viðbrögð hérlendis við því ef forstjóri fyrirtækis gerði samning upp á einn hundraðasta af því sem Elon Musk getur áunnið sér. Sá forstjóri væri með 10 þúsund milljónir á mánuði.

Þessi ótrúlega auðsöfnun örfárra einstaklinga í kringum stærstu tæknifyrirtæki heims er ekki bara ógn við lýðræðið í Bandaríkjunum heldur um heim allan. Joe Biden hafði uppi varnaðarorð í kveðjuávarpi sínu til bandarísku þjóðarinnar þar sem hann sagði að ólígarkí sem ógnaði lýðræði, réttindum og frelsi væri að taka á sig mynd.

Og það er önnur hlið á þessari þróun. Tæknifyrirtækin bandarísku framleiða vörur, þjónustu og afþreyingu sem í vaxandi mæli einoka athygli okkar frá morgni til kvölds. Þessi tækni hefur það að markmiði að skipta út raunverulegri reynslu og mannlegum samskiptum fyrir stöðuga síbylju afþreyingar og gervitengsla í gegnum skjái og snjalltæki. Hún er hönnuð til þess að vera ávanabindandi og er auðveldlega hægt að nota til þess að dreifa stórskaðlegum áróðri í stafrænu umhverfi sem býður heim hættunni á heilaþvotti. Áhrifin á andlega og vitsmunalega heilsu fólks koma sífellt betur í ljós og þar bendir allt í sömu átt. Og sú átt er hættuleg mannlegri reisn.

Ofurvald örfárra óligarka

Í veröld þar sem slíkur auður hefur safnast á fáar hendur að það ógnar lýðræðinu er samfélagið ekki lengur frjálst. Og tækni sem skaðar getu okkar til þess að upplifa heiminn og eiga í raunverulegum samskiptum við fólk af holdi og blóði eykur ekki frelsi okkar, heldur þvert á móti.

Sá tími sem við lifum markast af ofurvaldi örfárra óligarka austan hafs og vestan sem hirða ekki um raunverulegt frelsi almennings. Þótt hvorki íslensk stjórnvöld né hvert okkar sem einstaklingar höfum burði til þess að snúa við þessari óheillaþróun, þá höfum við skyldu til þess að spyrna við fótum til varnar mannlegri reisn og raunverulegu frelsi. Við erum sjálfstæð og fullvalda þjóð, við erum frjáls og sterk og hér ríkir samfélagslegt traust en í því liggja ómæld verðmæti sem við verðum að varðveita sem samfélag. Styrkleikar okkar samfélags eru miklir og það er okkar að passa upp á þá; traust, frelsi, frjálsan markað, sköpunargleði, menningu og mannlega reisn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.