Dökk mynd birtist okkur í nýlegri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi. Skipulagðir brotahópar hafa fest sig í sessi og stigmögnun og sýnileiki hefur aukist. Ofbeldið er meira og alvarlegra, brotin umfangsmeiri og erlendir brotahópar sitja um landið sem aldrei fyrr. Hér starfa í kringum 20 skipulagðir brotahópar sem hafa flestir erlendar tengingar. Ríkislögreglustjóri bendir á að umhverfið hér færist sífellt nær því sem gerist í nágrannalöndunum þar sem ofbeldisalda hefur gengið yfir og skotbardagar og sprengjuárásir eru daglegt brauð.
Við höfum stigið mikilvæg skref á undanförnum árum til að styrkja varnir okkar; komið á fót og styrkt samfélagslöggæslu og gert mikilvægar breytingar á lögreglu- og vopnalögum, þótt sumir þingmenn annarra flokka hafi verið mótfallnir. Nýleg dæmi um löggæslu gagnvart hættulegum erlendum glæpahópum sýna að þessar breytingar skiptu sköpum.
Dómsmálaráðherra hefur verið ákveðin í sínum málflutningi um áframhaldandi aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi spurði ég hana að því hvað við gætum gert betur og hver væru næstu skref. Þar teldi ég að við þyrftum að horfa til nágrannalandanna í ríkari mæli.
Ég hef tekið þessi mál upp á Alþingi, m.a. varðandi þyngri refsingar og útvíkkun refsiramma. Þar hef ég haft sérstakar áhyggjur af tilraunum glæpagengja til að narra ungmenni til liðs við sig. Ráðherra lagði áherslu á alþjóðlegt samstarf og samvinnu löggæsluyfirvalda – við þyrftum að sækja að skipulögðum glæpahópum úr öllum áttum. Hún nefndi þar löggæslu, opinbera eftirlitsaðila, Skattinn og fjármálaeftirlit. Hún tók undir að við horfðum til nágrannalandanna og ættum að forðast mistök þeirra.
Þingmenn Alþingis eru samstilltari en áður í viðhorfum til þessa málaflokks, og munar þá um viðsnúning ýmissa stjórnarliða. Í tíð dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins voru stigin mikilvæg skref til varnar gegn skipulagðri brotastarfsemi og núverandi dómsmálaráðherra hefur verið mjög ákveðin í sínum málflutningi. Okkur er því ekkert að vanbúnaði að senda skýr skilaboð til glæpahyskis sem sækir að okkur.

