Lýðræðishlutverk fjölmiðla er mikilvægt þar sem þeir eiga að upplýsa almenning óháð því hvort fréttaflutningurinn komi sér vel eða illa fyrir valdhafa hverju sinni. Hið svokallaða fjórða vald þeirra er talið hafa eflst eftir Watergate-hneykslið þar sem Nixon forseti sagði af sér eftir fjölmiðlaumfjöllun Washington Post og markaði ný spor í umfjöllun um valdhafa hvort sem þeim líkaði betur eða verr.
Yfirlýsing Stjórnarráðsins á dögunum þar sem Morgunblaðið er að ósekju sakað um ófagleg vinnubrögð gagnvart barna- og menntamálaráðherra er því grafalvarleg. Höfuðið var svo bitið af skömminni þar sem almannafé var nýtt til að kosta dreifingu á samfélagsmiðlum á þeim haldlausu árásum ráðherrans á hendur fjölmiðilsins.
Í siðareglum ráðherra segir um meðferð fjármuna að ráðherra skuli ekki nýta opinbera fjármuni eða gæði starfsins í persónulegum eða pólitískum tilgangi. Siðareglurnar veita leiðsögn um það hvers konar framganga hæfir svo veigamiklu embætti og vandséð hvaða reglur leyfa ráðherrum að nýta skattfé í viðlíka tilgangi.
Formaður Blaðamannafélagsins sá enda tilefni til þess að fordæma yfirlýsingar ráðherra og sagði þær alvarlega aðför að fjölmiðlafrelsi á Íslandi, fela í sér mikla vanþekkingu og afhjúpa hættuleg viðhorf gagnvart fjölmiðlum.
Því miður hefur ríkisstjórnin áður gert atlögu að fjölmiðlafrelsi á Íslandi. Skemmst er að minnast þeirrar atburðarásar sem varð í vor þar sem kjörnir fulltrúar stigu fram og lýstu því yfir að ákveðnir fjölmiðlar ættu að fá minna í sinn hlut af opinberum styrkjum vegna fréttaflutnings sem var þeim ekki að skapi – sem ótrúlegt en satt raungerðist svo í haust með lagasetningu ríkisstjórnarinnar þess efnis.
Einhver hefði kannski talið ráðlegt að ríkisstjórnin myndi eftir þá vondu atburðarás stíga varlega til jarðar í því að nýta aflsmuni valds síns gegn frjálsum fjölmiðlum. En þegar þetta er skrifað hefur enginn úr stjórnarmeirihlutanum gagnrýnt nýjustu aðför ráðherra að íslenskum fjölmiðli í boði skattgreiðenda. Það veldur miklum áhyggjum.
Fjölmiðlar búa heilt yfir blessunarlega við mikið frelsi til sinna starfa. En frelsið getur verið viðkvæmt og þá sérstaklega þegar rekstrarumhverfi fjölmiðla er samofið duttlungum valdhafa. Því er mikilvægt að hvers kyns óréttmætar aðfinnslur þeirra í garð fréttaumfjöllunar sé án undanbragða mætt af einurð.
Við þekkjum dæmi þar sem fjölmiðlar hafa þann tilgang að flytja eingöngu tilhlýðilegar fréttir af öllu því góða sem stjórnvöld eru að bardúsa. Það er alls ekki eftirsóknarverð staða. Heiti stærstu dagblaða sovétsins, Pravda og Izvestia, eru á íslensku „Sannleikurinn“ og „Fréttirnar“ og þar því gjarnan haft á orði að það séu „engar fréttir í Sannleikanum og enginn sannleikur í Fréttunum“.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

