Ungir sjálfstæðismenn birtu í morgun myndband á samfélagsmiðlum þar sem þeir saga í sundur bíl til að vekja athygli á þeim skattahækkunum sem „venjulegt fólk“ mun standa frammi fyrir þegar fyrirhugaðar hækkanir á vörugjöldum á bifreiðar taka gildi um áramótin.
Í myndbandinu útskýrir formaður SUS, Júlíus Viggó Ólafsson, hvernig ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hyggst hækka skatta, þvert á fyrri kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna. Að því loknu er Volvo station, dæmigerður fjölskyldubíll, sagaður í sundur til að sýna hversu stór hluti kaupverðs bílsins mun renna beint til ríkisins eftir áramót. Í þessu tilviki mun ríflega 40% af kaupverðinu fara í ríkissjóð eftir fyrirhugaða hækkun.
Ungir sjálfstæðismenn benda á að um er að ræða skattahækkun á almenning, enda þurfi nær allir Íslendingar að aka bíl, hvort sem mönnum líki það betur eða verr.
Í myndskeiðinu er einnig bent á hvað forystumenn ríkisstjórnarinnar sögðu fyrir kosningar.
„Samfylkingin ætlar ekki að hækka skatta á vinnandi fólk í landinu,“ sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, fyrir kosningar.
„Við lofum því að hækka ekki skatta,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fyrir kosningar.
Eins og bent er á í myndbandinu þá er búið að brjóta þessi loforð.
Sjón er sögu ríkari, skoðaðu myndbandið hér.

