Ákvörðun Evrópusambandsins um að beita verndartollum á kísiljárn frá Íslandi og Noregi eru vatnaskil í samskiptum okkar við sambandið. Þetta er mikið áfall fyrir íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf. Það er öllum ljóst að ESB hefur með þessari aðgerð sinni niðurlægt ríkisstjórnina og Ísland. Um er að ræða pólitíska ákvörðun sem hefur verið undirbúin í ellefu mánuði og gengur gegn grundvallarreglum EES-samningsins. Eftir stendur spurningin um hvað ríkisstjórnin var að gera í þessa 11 mánuði sem Evrópusambandið undirbjó ákvörðunina.
Tvískinnungur þessarar ríkisstjórnar er öllum augljós: Þær segjast ætla að standa vörð um EES-samninginn en halda samt ótrauðar áfram í átt að aðild að Evrópusambandinu sem nú brýtur gegn sama samningi. Þarna hefur ríkisstjórnin misst sjónar á því sem mestu máli skiptir.
Þegar flokkur sem notar slagorðið „almannahagsmunir framar sérhagsmunum“ notar ákvörðun ESB fyrst og fremst til að knýja áfram pólitíska vegferð inn í Evrópusambandið, á sama tíma og veigamiklir hagsmunir íslensks samfélags eru undir, blasir við að sérhagsmunir ESB-aðildarsinna eru í reynd hafðir framar almannahagsmunum.
Meginreglur skipta máli
Forsætisráðherra sagði að efnahagslegt tjón vegna aðgerðanna væri lítið. Það breytir því þó ekki að meginreglur hafa verið þverbrotnar. Ef við sættum okkur við að ESB geti vikið EES-samningnum til hliðar eftir eigin hentisemi þá erum við í raun að sætta okkur við að Ísland njóti ekki lengur sömu stöðu og réttinda og aðrir á innri markaðnum. Það getum við ekki gert.
Evrópusambandið er ekki góðgerðarsamtök heldur hagsmunavettvangur ríkja sem þykir ekkert tiltökumál að virða alþjóðasamninga að vettugi og ýta Íslandi út fyrir tollmúr þegar íslenskir hagsmunir rekast á við hagsmuni sambandsins. Fyrir liggur að forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, beitti sér persónulega gegn undanþágu fyrir Ísland og Noreg. Þetta er sú hin sama og sat hér með íslenskum ráðherrum, talaði um traust og vináttu og stillti sér upp í þyrluferðum fyrir myndavélar.
Í gær sagði forsætisráðherra að von der Leyen hefði símleiðis fullvissað hana um að ákvörðunin væri ekki fordæmisgefandi og snerist ekki um EES-samninginn. Slíkar munnlegar tryggingar breyta hvorki texta samningsins né þeirri einföldu staðreynd að ESB er í verki að setja Ísland og Noreg til hliðar á innri markaði og er í lófa lagið að gera það aftur síðar.
Ég hef áhyggjur af því að einlæg stefna ríkisstjórnarflokkanna um að þrýsta Íslandi inn í Evrópusambandið hafi litað hagsmunagæsluna í þessu máli. Það sést í umræðunni á Alþingi og í Kastljósi á þriðjudagskvöld, þar sem atvinnuvegaráðherra hafnaði því að kaldar kveðjur frá ESB ættu að hafa áhrif á afstöðu okkar til aðildar. Það sem vekur enn meiri athygli er að enginn fulltrúi ríkisstjórnarflokkanna hefur einu sinni látið að því liggja að Ísland sé að sjálfsögðu ekki á leið í aðlögunarferli við ESB við þessar aðstæður. Sú þögn segir sína sögu um forgangsröðun og áherslumál ríkisstjórnarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn er helsti málsvari EES-samningsins
Sjálfstæðisflokkurinn hefur varið EES-samninginn frá upphafi og hefur hann verið gríðarlega mikilvægur fyrir íslenskt efnahagslíf. Að standa vörð um EES-samninginn felur ekki í sér að við sitjum hljóð þegar stærri samningsaðilinn beitir valdníðslu gagnvart EES-ríkjunum. Að standa vörð um EES er að gera þá sjálfsögðu kröfu að samningurinn virki í báðar áttir.
Þess vegna hef ég lagt til að forsætisráðherra kalli saman formenn allra flokka. Þetta mál er af þeirri stærðargráðu að það varðar alla hagsmuni landsins og á að vera hafið yfir flokkapólitík. Þremur sólarhringum síðar blasir hins vegar við að ekkert hefur gerst og vilji til samtals er enginn. Það er því miður kunnuglegt stef.
Ísland þarf að svara af festu
Nú þarf skýra og sameiginlega viðbragðsáætlun. Við í Sjálfstæðisflokknum leggjum alla áherslu á að styðja og styrkja EES-samninginn, en hann stendur aðeins traustur ef báðir aðilar virða hann. Við erum tilbúin að leggja okkur öll fram í hagsmunagæslu fyrir Ísland á hvaða vettvangi sem er, þar á meðal í EFTA og sameiginlegu EES-nefndinni.
Til að undirstrika alvarleika málsins tel ég eðlilegt að Alþingi íhugi að taka engin ný EES-innleiðingarmál á dagskrá fyrr en eftir næsta fund sameiginlegu EES-nefndarinnar og að forsætisráðherra kalli alla flokka að borðinu um næstu skref. Ísland á ekki að sætta sig við lakari stöðu á innri markaði. Sjálfstæðisflokkurinn er reiðubúinn í þá vegferð.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins.

