Á fjölmennum félagsfundi Sjálfstæðisfélags Hveragerðis á fimmtudagskvöld voru ræddar leiðir varðandi val á framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor. Ákveðið var af fundarmönnum að félagið byði fram undir heitinu D-listinn og að viðhöfð yrði uppstilling við val á lista.
Haldnir hafa verið tveir málefnafundir á undanförnum mánuði þar sem félagsmenn voru virkjaðir í undirbúningsvinnu þar sem vegnir voru kostir og ókostir við ólíkar leiðir til að velja á lista. Þar voru leiðirnar uppstilling, prófkjör og leiðtogaprófkjör skoðaðar í kjölinn af félagsmönnum sem og hvort félagið ætti að bjóða fram undir heitinu D-listinn eða D-listinn og óháðir. Vinnan var svo kórónuð á fimmtudagskvöld þar sem félagsmenn skáru úr um hverjar þessara leiða yrðu ofan á.
Stjórn félagsins lagði til við fundinn að viðhafa uppstillingu undir heitinu D-listinn. Tillaga barst frá fundarmanni um að fara leiðtogaprófkjörsleiðina undir heitinu D-listinn og óháðir. Þá barst önnur tillaga í framhaldi af því þar sem lagt var til að fundarmenn myndu kjósa milli allra kostanna sem var samþykkt af fundinum. Niðurstöður þeirra kosninga varð sú, sem fyrr segir, að boðið verði fram undir heitinu D-listinn og að viðhöfð verði uppstilling við val á framboðslista.
Stjórn Sjálfstæðisfélags Hveragerðis lagði til við fundinn að Áslaug Einarsdóttir, Elínborg María Ólafsdóttir, Eyþór H. Ólafsson, Hafsteinn Davíðsson og Hekla Björt Birkisdóttir myndu skipa uppstillingarnefnd og var sú tillaga samþykkt. Nefndin hefur þegar hafið störf og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við nefndarmenn hafi þeir hug á að gefa kost á sér á framboðslista D-listans

