Ríkið er stærsti vinnustaður landsins, en ríkisstarfsmenn eru yfir 20 þúsund. Þegar litið er til hins opinbera starfar um þriðjungur launafólks hjá hinu opinbera, en launafólki þar hefur fjölgað margfalt á við launafólki á almennum markaði. Laun opinberra starfsmanna hafa sömuleiðis hækkað hraðar en önnur laun.
Ríkið sem vinnustaður hefur verið mér hugðarefni sem þingmaður, en ég hef m.a. ítrekað lagt fram frumvarp, ásamt hópi sjálfstæðismanna, til breytingar á lögum um ríkisstarfsmenn. Ríkinu eru skorður settar í starfsmannahaldi sínu með ýmsum sérreglum. Breytingarnar miða að því að fella niður þá skyldu forstöðumanna að áminna starfsmann með formlegum hætti vegna brots hins síðarnefnda á starfsskyldum eða þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem leiða af starfi hans. Með þeim væri sveigjanleiki aukinn í opinberu starfsmannahaldi.
Þunglamalegt starfsmannahald hins opinbera
Nýleg fyrirspurn mín í þinginu til fjármála- og efnahagsráðherra gefur ágæta mynd af þunglamalegu starfsmannahaldi hins opinbera. Í svari frá ráðherranum kemur fram að á árunum 2015 til 2024 greiddi ríkissjóður samtals yfir 525 milljónir í bætur til einstaklinga í kjölfar úrskurða eða dóma vegna ágreinings um starfsmannahald ríkisins, en heildarkostnaður fyrir ríkissjóð var yfir 640 milljónir.
Svarið er sömuleiðis athyglisvert með hliðsjón af eldri fyrirspurn minni um áminningar til sama ráðherra. Í svarinu kemur fram að á árunum 2015 til 2024 voru alls fjórar áminningar veittar í fjármálaráðuneytinu og undirstofnunum þess. Starfsmennirnir sem störfuðu þar á tímabilinu eru örugglega langflestir til fyrirmyndar.
Tölfræðin styður þó það sem hefur m.a. komið fram af hálfu forstöðumanna ríkisstofnanna, nefnilega að viðhorf innan opinbera geirans séu mjög neikvæð í garð þess tóls sem áminningar eru. Kannanir á meðal forstöðumannanna hafa sömuleiðis sýnt að þeir telja að lagaumgjörð um ríkisstarfsmenn komi í veg fyrir skilvirkni og hagræðingu og komi niður á þjónustu í opinberum rekstri.
Stjórnarliðar skipta um skoðun
Ný ríkisstjórn hefur boðað breytingar á lögum um ríkisstarfsmenn, samhljóða frumvarpi okkar sjálfstæðismanna. Áformin snúa s.s. að því að afnema áminningarskyldu sem undanfara uppsagnar. Stjórnarliðar á þingi og í ráðherraliði, sem áður mótmæltu tillögum okkar harðlega hafa nú snúið frá villu síns vegar. Það er vel.
Nú þegar hefur gætt mikillar og fyrirsjáanlegar andstöðu við áformin, m.a. frá verkalýðshreyfingunni. Hún hafði áður birst í umsögnum til Alþingis vegna framangreinds frumvarps okkar. Ég á bágt með að skilja þessa afstöðu. Hvers vegna skyldi staða starfsfólks ekki vera jöfnuð hvað þetta varðar?
Gjörbreytt réttarstaða opinberra starfsmanna
Frá því lög voru sett um um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins árið 1954 hefur réttarstaða opinberra starfsmanna gjörbreyst. Sama má segja um eðli og umfang þeirra starfa sem lögin taka til. Eðlilegast væri því að færa réttarstöðu opinberra starfsmanna sem næst því sem gerist á hinum almenna markaði. Þróunin hefur enda verið í þá átt í nágrannalöndum okkar.
Það á enn eftir að koma í ljóst hvort ríkisstjórnin stendur í lappirnar og sameinast um þessar löngu tímabæru breytingar. Verði ráðist í þær, verður auðvitað eftir sem áður almenn krafa að málefnaleg sjónarmið liggi til grundvallar starfslokum og lausn frá embætti, enda tryggja stjórnsýslulög ríkisstarfsmönnum fullnægjandi réttarvernd í starfi. Réttaröryggi opinberra starfsmanna í samskiptum við vinnuveitanda sinn verður sömuleiðis meira en það sem launþegar búa almennt við.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

