Á tæpum mánuði var ekið á þrjú börn í tveimur slysum á merktri gangbraut við gatnamót Reykjavegar og Kirkjuteigs. Foreldrar í hverfinu hafa gagnrýnt Reykjavíkurborg og óskað eftir tafarlausum viðbrögðum í því skyni að auka umferðaröryggi á þessum stað.
Aukið öryggi á Reykjavegi
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að ráðist verði í úrbætur í þágu gangandi og hjólandi vegfarenda á umræddum gatnamótum og gangbrautarljós og/eða snjallljósabúnaður sett upp á gangbrautinni. Tillagan var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 12. nóvember. Afar brýnt er að gripið verði til aðgerða sem fyrst til að auka umferðaröryggi á umræddum gatnamótum.
Merktar gangbrautir eiga að gefa ökumönnum skýrlega til kynna að þar sé von á gangandi eða hjólandi umferð og samkvæmt lögum ber þeim að stöðva til að hleypa slíkum vegfarendum yfir. Gangbraut er þó ekki trygging fyrir því að óvarðir vegfarendur sjáist af ökumönnum og því verða þeir ætíð að sýna aðgát þegar hún er notuð.
Hætta við Hamrastekk
Alvarlegt umferðarslys varð í júní sl. þegar ekið var á sjö ára dreng í Hamrastekk í Breiðholti. Drengurinn ætlaði að hjóla yfir götuna um gönguþverun, sem tengir saman tvo kafla göngustígs er liggja að götunni. Ólíkt hefðbundinni gangbraut er gönguþverun ómerkt. Umræddur stígur er torséður, jafnvel falinn, og vegna blindhorns geta ökumenn átt erfitt með að átta sig á því að þar geti óvarðir vegfarendur birst skyndilega. Augljóst er að grípa þarf til aðgerða til að auka umferðaröryggi á þessum stað og hafa íbúar í hverfinu safnað undirskriftum til að krefjast úrbóta. Um er að ræða fjölfarna leið barna og ungmenna og er þetta ekki fyrsta slysið þarna.
Meirihlutinn fellir úrbótatillögu
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að umrædd gönguþverun á Hamrastekk verði merkt sem gangbraut, þ.e. með viðeigandi umferðarskiltum og hvítum samhliða yfirborðsmerkingum (zebrabraut) til að vekja athygli ökumanna á hættunni.
Tillagan var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 12. nóvember og hlaut tvö atkvæði Sjálfstæðisflokksins en var felld með fjórum atkvæðum Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins og Vinstri grænna. Lýsir það slæmu viðhorfi til umferðaröryggismála að borgarfulltrúar vinstri meirihlutans vilji ekki einu sinni að skoðað verði að ráðast í áðurnefndar úrbætur á þessum stað.
Á undanförnum árum hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins flutt fjölmargar tillögur um aukið umferðaröryggi óvarinna vegfarenda, þ.e. gangandi og hjólandi. Sumar þeirra hafa náð fram að ganga. Aðrar hafa verið felldar eða vísað inn í borgarkerfið til svæfingar af meirihlutum vinstri flokkanna.
Dæmin hér að framan eru ólík að því leyti að í öðru dæmi er um merkta gangbraut að ræða en í hinu ómerkta gönguþverun. Allt mælir með því að merkja hina ómerktu gönguþverun við Hamrastekk og vekja þannig athygli ökumanna á hættunni sem þar er. Þá væri einnig æskilegt að merkja gangbrautina yfir Reykjaveg mun betur en nú er gert til að skerpa á athygli hinna fjölmörgu ökumanna, sem þar eiga leið um. Ljóst er að núverandi ástand er óviðunandi. Þá er útlit er fyrir að umferð gangandi og hjólandi skólabarna yfir Reykjaveg muni aukast verulega þegar skólastarf hefst í svokölluðu skólaþorpi við hlið Laugardalsvallar.
Notendastýrð lýsing gangbrauta
Miklar framfarir eiga sér nú stað í umferðaröryggismálum með svokallaðri snjalltækni. Erlendis hefur þessi tækni víða verið nýtt með góðum árangri í þágu óvarinna vegfarenda og þá ekki síst á gangbrautum. Gagnvirk notendastýrð lýsing felur í sér að skynjari fylgist með því þegar gangandi eða hjólandi vegfarandi nálgast gangbraut. Sér tækið til þess að hann komist örugglega yfir götuna með því að stöðva bílaumferð með umferðarljósum eða vekur athygli ökumanna á hættunni með öðrum hætti. Margar útfærslur eru til en allar stórauka þær umferðaröryggið.
Slík lýsing hefur verið reynd í tilraunaskyni við fjórar gangbrautir í Reykjavík og sýnt fram á gildi sitt þótt viðhaldið mætti vera betra. Slíkur snjallljósabúnaður ætti vel við á Hamrastekk, Reykjavegi og raunar miklu víðar.
Innleiða þarf þessa notendastýrðu lýsingu í stórum stíl á gangbrautum hérlendis eins og gert hefur verið hjá nágrannaþjóðum okkar. Þarna á Reykjavíkurborg að vera í fararbroddi og tími er til kominn að láta verkin tala.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2025.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykavík.

