Frjáls viðskipti og aðgangur að alþjóðamörkuðum eru undirstaða velferðar og lífskjara á Íslandi sem með sitt litla opna hagkerfi reiðir sig að mestu á utanríkisviðskipti. Þar er EES-samningurinn okkur langmikilvægastur og verður að verja með öllum mætti.
Það var því mikið áfall í gær að Evrópusambandið ákvað að hafa EES-samninginn að engu með því að leggja tolla á innflutning íslensks og norsks járnblendis. Að eigin sögn til þess að verja hagsmuni evrópskra framleiðenda sem eiga undir högg að sækja í alþjóðlegri samkeppni.
Samkeppnishæfni ESB er almennt ekki upp á marga fiska og hagvöxtur á svæðinu hefur verið dapur undanfarinn áratug. En að grípa til einfalds pennastriks viðskiptahindrana í stað þess að leggja það á sig að ráðast að rót vandans verður að teljast til ákveðinnar uppgjafar af hálfu embættismannakerfisins í Brussel. Það sjá það allir sem vilja, að lausn ESB á þeim vanda sem steðjar að þeirra atvinnugreinum er að draga úr hamlandi og íþyngjandi regluverki, ekki að ráðast á mikilvæga viðskiptahagsmuni vinaþjóða. Til þess eins gert að verja iðnað hvar starfa aðeins um 1.800 manns í 450 milljón manna samfélagi. Það er svipað og ef Ísland tæki upp verndartolla til að verja eitt og hálft stöðugildi.
Það er alvarlegt að ESB sé til í að fórna mikilvægum prinsippum EES-samstarfsins fyrir ekki meiri hagsmuni en raun ber vitni. Það er sannarlega ekki góður vitnisburður um forgangsröðun og nálgun ESB gagnvart samstarfsþjóðum sínum eða samningum. Það er teikn sem er ekki ósanngjarnt að kalli á vangaveltur um hvað svo og hvað næst; ætlar ESB kannski næst að leggja toll á álið?
Það er óforsvaranlegt að Ísland hafi kappkostað að uppfylla sínar skyldur gagnvart EES-samningnum gegn því að hafa aðgang að innri markaði sambandsins sem svo er lokað á með pennastriki ESB. Það er óskiljanlegt að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra lýsi einungis yfir frekar tilþrifalitlum „vonbrigðum en varnarsigri“ í þessu máli. Átta forystumenn ríkisstjórnarinnar sig ekki á því að EES-samningurinn var brotinn og EES-samstarfið er í uppnámi? Finnst ríkisstjórninni það ekki grafalvarleg hneisa?
Það er sjálfsögð krafa landsmanna til ríkisstjórnar sinnar að hún geti sýnt fram á að ekkert nema fortakslausir hagsmunir þjóðarinnar hafi verið í forgrunni í samtölum við ráðamenn ESB undanfarið þó ljóst sé að heimsókn von der Leyen hafi ekki hjálpað. Að það sé kýrskýrt að ekki hafi verið settir lopavettlingar á hnefana sem barið var í borðið í Brussel vegna þess að aðild að ESB kitlar helstu ráðamenn.
Það er ábyrgðarhluti ríkis með sjálfsvirðingu að brugðist sé við af fullum þunga þegar landinu er sýnd viðlíka lítilsvirðing og skýlaust er brotið á mikilvægasta samningi og samstarfi Íslands.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. nóvember 2025
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

