Markmið okkar sem gegnum forystu í Kópavogi er skýrt: að bæta lífsgæði íbúa með öflugri þjónustu, ábyrgum rekstri og lágum sköttum. Nú þegar líður á seinustu mánuði þessa kjörtímabils er mikilvægt að fara yfir þær áherslur sem við höfum sett í forgang á kjörtímabilinu.
Skattar lækkað á hverju ári
Við höfum lagt áherslu á skattalækkanir allt kjörtímabilið og höfum látið verkin tala í þeim efnum.
Frá upphafi kjörtímabilsins hafa fasteignaskattar lækkað á hverju ári og munu áfram lækka á næsta ári. Skattalækkanirnar nema samtals 3,7 milljörðum króna – um milljarði á ári sem verður eftir hjá heimilum í bænum. Við höfum hagrætt í rekstri og forðast óþarfa útgjöld til að tryggja ábyrgan rekstur samhliða skattalækkunum.
Á sama tíma hefur Samfylkingin í Kópavogi margsinnis lagt til hærri skatta allt þetta kjörtímabil og látið lítinn vafa leika um að flokkurinn líti á lægri skatta á heimilin sem vannýttar tekjur. Slíkt viðhorf samræmist þeirri stefnu sem ríkisstjórnin undir forystu flokksins rekur í dag. Það er mikilvægt að muna að skattar eru ekki sjálfsögð eign hins opinbera – þeir eru teknir úr launaumslagi heimilanna.
Ákvörðun um skattalækkanir er pólitísk og endurspeglar skýra stefnu okkar sem gegnum forystu í Kópavogi. Árangur af stefnu okkar er skýr, Kópavogsbúar greiða nú lægstu fasteignagjöld á höfuðborgarsvæðinu og meðal stærstu sveitarfélaga landsins, þrátt fyrir hátt fasteignamat.
Við virðum þarfir okkar íbúa, hvort sem þær snúa að bættri þjónustu eða lægri sköttum. Skýr sýn og stöðug stefna gera okkur kleift að láta verkin tala. Það höfum við gert í Kópavogi.
Áherslur sem skila árangri
Við höfum tryggt fleiri börnum pláss og stöðugri þjónustu með breytingum á leikskólum. Leikskólar í Kópavogi eru fullmannaðir, aldrei hefur þurft að loka sökum manneklu og við erum nú að bjóða börnum allt niður í 12 mánaða aldur leikskólavist. Foreldrar leikskólabarna í Kópavogi geta treyst á þá þjónustu sem við bjóðum upp á.
Í grunnskólum erum við að svara ákalli foreldra, nemenda og kennara um skýrari sýn á hvar börn standa í námi. Við höfum innleitt samræmt stöðumat frá 4. bekk og fyrstu prófin verða lögð fyrir nú í mars. Við ætlum einnig að tryggja skýrara námsmat fyrir nemendur, endurskoða móttöku barna sem komu erlendis frá og efla öryggi starfsfólks og nemenda í skólum bæjarins. Allar miðast þessar áherslur okkur við að setja framtíð nemenda í Kópavogi í fyrsta sæti.
Við endurskipulögðum einnig menningarhús bæjarins til að nýta betur skattfé bæjarbúa og hagræddum í rekstri með breyttri forgangsröðun samhliða því sem við jukum þjónustu. Metaðsókn gesta fyrsta sumarið eftir breytingar sýnir að hagræðing og aukin þjónusta geta farið saman til hagsbóta fyrir Kópavogsbúa.
Verkefnið Virkni og vellíðan hefur verið útvíkkað til að þjóna fleirum en það miðar að því að efla andlega, félagslega og líkamlega heilsu eldri bæjarbúa. Aðsókn hefur aukist ár frá ári sem endurspeglar hversu mikilvægt er að þjóna þessum þörfum okkar íbúa. Þá höfum við, og munum áfram, leggja áherslu á öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf í bænum. Þannig leggjum við grunn að betri framtíð, því framtíðin er svo sannarlega í Kópavogi.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs

