17. nóvember 2025

Völd og valdheimildir

Á Íslandi tölum við um stjórnarskipti þegar ný ríkisstjórn tekur við, en ekki valdaskipti. Mér finnst þessi aðgreining mikilvæg því í henni felst kjarninn í nauðsynlegum skilningi á valdmörkum stjórnmálamanna og embættismannakerfisins. Báðir hópar hafa völd og á milli þeirra þarf að finna jafnvægi. Í þau átta ár sem ég hef gegnt ráðherradómi hef ég lagt mig mjög fram um að virðing og samstarfsvilji ríki milli stjórnmálamanna og embættismanna. Í því liggja hagsmunir almennings. Og til að ná árangri í þessum störfum þarftu öfluga embættismenn með þér, og þeir eru margir. Þó er að mínu mati eðlilegt að ákveðin togstreita sé fyrir hendi milli þessara hópa. Það er einfeldni ef embættismenn þykjast einvörðungu vinna eftir vilja ráðherra og það er stundum óþarfur uppgjafartónn í því þegar stjórnmálamenn tala eins og embættismannakerfið geri þeim ómögulegt að hrinda allri sinni snilld í tafarlausa framkvæmd.

Í síðasta mánuði kom út skýrsla um íslenska embættismannakerfið: „Kjölfesta í hringiðu lýðræðis.“ Nefndin sem skilaði skýrslunni leitaði til nokkurra fyrrverandi ráðherra, (ekki mín), við vinnslu skýrslunnar en að öðru leyti höfðu stjórnmálamenn ekki aðkomu að skrifunum. Þar er meðal annars lagt til að lengja skipunartíma æðstu embættismanna, draga úr áhrifum ráðherra á ráðningu æðstu embættismanna og að pólitískt skipaðir aðstoðarmenn, trúnaðarmenn ráðherra, verði látnir víkja úr störfum sínum þremur mánuðum fyrir kosningar. Sjálf er ég ósammála því að þetta væru jákvæðar breytingar á stjórnkerfinu okkar. Ég er hins vegar sammála um að breytinga sé þörf.

Hið varanlega embættismannakerfi hefur það hlutverk að viðhalda stöðugleika í samfélaginu þótt flokkspólitískir vindar breyti um stefnu. Það getur verið óheillaþróun þegar stjórnmálamenn gera skyndilegar og stórtækar breytingar á stjórnkerfinu. Þetta á ekki síst við innan réttarkerfisins, þar sem óeðlilegt og hættusamt er ef flokkshollusta eða hugmyndafræðileg slagsíða ræður úrlausn mála. Á allra síðustu árum hefur togstreitan á milli varanlega embættismannakerfisins, sem stundum er kallað „djúpríkið“, og lýðræðislega kjörinna stjórnmálamanna farið vaxandi víða um heim. Öðru hverju heyrist bergmál af þeirri umræðu hér á landi, og gjarnan er sagt í kerskni að það sé sama hverjar séu niðurstöður kosninga, hinn ókosni E-listi embættismanna standi ætíð uppi með pálmann í höndunum. Þetta er vitaskuld ofmælt, en sannleikurinn er að í þroskuðu lýðræðissamfélagi, sem byggist á mannréttindum og réttarríki, hafa bæði embættismenn og stjórnmálamenn raunveruleg völd. Þannig er það. Og þannig á það að vera.

En það eru hins vegar gömul sannindi og ný að vald spillir. Þetta gildir vitaskuld um bæði stjórnmálamenn og embættismenn eins og allt annað fólk af holdi og blóði. Togstreitan sem ríkja þarf milli kjörinna fulltrúa og varanlega embættismannakerfisins er hluti af kerfi sem er hannað til þess að tempra völd beggja, því ekki er viturlegt eða þroskað að ætla öðrum hópnum að vera ónæmur fyrir þeim freistingum sem fylgja völdum. Í þessu samhengi er hollt að minnast þess að hin sögulega krafa almennra borgara um lýðræðisvæðingu hefur einna helst byggst á óþoli gagnvart taumlausu valdi opinberra embættismanna, oft miklu frekar en sterkum skoðunum á því hvort þjóðhöfðingjar séu kallaðir kóngar eða forsetar. Þá er einnig rétt að hafa hugfast að í löndum þar sem djúpstæð spilling nær að festa rætur, sem er ekki staðan á Íslandi, þá er það jafnan hið varanlega embættismannakerfi sem stendur í vegi fyrir umbótum þegar framfarasinnaðir stjórnmálamenn komast til áhrifa. Það er því kolrangt að líta svo á að verkefni embættismanna sé að hafa taumhald á stjórnmálamönnum en þeir eigi ekki sjálfir að sæta lýðræðislegu aðhaldi kjörinna fulltrúa og lúta stefnumótunarvaldi ráðherra.

Ráðherrar á Íslandi bera ábyrgð á öllu starfi ráðuneyta frá þeim degi sem þeir taka við embættum sínum. Miðað við núverandi kerfi koma upp tilvik þar sem lítið, eða ekkert, raunverulegt vald fylgir þeirri ábyrgð. Ráðherraskrifstofur á Íslandi eru veikar í samanburði við það sem ég þekki til hjá flestum löndum í kringum okkur, ekki síst vegna þess að stöðu aðstoðarmanna ráðherra fylgja nánast engin formleg völd. Meðal þess sem ég tel að þurfi að breyta er að taka af allan vafa um að trúnaðarmenn ráðherra geti í umboði hans tekið virkan þátt í stjórnun og hafi formlegar valdheimildir. Um aðstoðarmenn gildir hvort sem er hið nákvæmlega sama og alla aðra starfsmenn ráðuneytis – ráðherrann ber hina endanlegu ábyrgð. Ég er þeirrar skoðunar að trúnaðarmenn ráðherra ættu að vera fleiri þannig að þeir komi, og fari, með ráðherranum. Í þessu samhengi þykir mér ekki óeðlilegt að gera hæfniskröfur til þeirra aðstoðarmanna ráðherra sem hafa hlutverk og vald innan ráðuneytis. Breyting í þessa átt tel ég að myndi hafa jákvæð áhrif á starfshætti í Stjórnarráðinu, hreinsi út óþarfa flöskuhálsa, stuðli að vandaðri og hraðvirkari stjórnsýslu og bæti jafnvægið milli lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar og varanlega embættismannakerfisins.

Það þarf að marka betur línurnar á milli þessara hópa og það dugir ekki að stjórnmálamenn láti embættismannakerfið sjálft alfarið um slíka tillögugerð. Um miðjan níunda áratuginn skilaði gagnmerkur pólitískt skipaður hópur utan embættismannakerfisins skýrslu þar sem lagt var til að pólitísk ábyrgð ráðherra í ráðuneytum yrði styrkt verulega. Vegna óvæntra stjórnarskipta varð málið aldrei útrætt, og hvarf smám saman úr umræðunni. Ég tel tímabært að stjórnmálastéttin taki á ný frumkvæði í umræðunni um stjórnskipulag lýðveldisins. Þar getur skýrsla eins og sú sem skilað var fyrir skemmstu verið innlegg, en valdið og frumkvæðisskyldan liggur hjá stjórnmálamönnum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. nóvember 2025.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.