Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins hafa sett aðild að Evrópusambandinu á dagskrá á ný með fyrirheiti um þjóðaratkvæðagreiðslu. Aðild Íslands að ESB var síðast á dagskrá vinstristjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem stóð fyrir umsókn að ESB árið 2009. Sama ríkisstjórn ákvað síðan að gera „hlé“ á viðræðunum árið 2013.
Eins og fram kemur í minnisblaði til ríkisstjórnar frá 2013, höfðu viðræður um „mikilvægustu kafla“ viðræðnanna ekki enn hafist þegar viðræðunum var slitið. Málaflokkarnir sem voru ekki „opnaðir“ í viðræðunum snerta m.a. íslenskan sjávarútveg og landbúnað. Málaflokkar sem snúa að mikilvægustu hagsmunum Íslands.
Aðildarríki ESB eiga tilkall til ýmissa embætta á vegum þess og æðstu embætti þess eru gjarnan skipuð fyrrverandi ráðherrum og háttsettum embættismönnum aðildarríkjanna. Af þeim sökum höfum við þingmenn Sjálfstæðisflokks lagt fram frumvarp sem snýr að reglum um starfsval að loknum ýmsum opinberum störfum. Við leggjum til nýja reglu þegar æðstu stjórnendur og aðstoðarmenn ráðherra, sem sinna hagsmunagæslu fyrir hönd Íslands í samningaviðræðum við erlend ríkjabandalög eða alþjóðastofnanir, láta af störfum í Stjórnarráði Íslands. Þá verði þeim óheimilt að þiggja embætti á vegum slíkra aðila næstu 18 mánuði eftir starfslok, komi til inngöngu. Og raunar ætti tímabilið að vara lengur.
Þegar er hér að finna slíkar reglur, m.a. í lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands og í siðareglum ráðherra og starfsfólks ríkisins. Margar nágranna- og vinaþjóðir okkar hafa strangari lagaramma varðandi starfsval og hagsmunaárekstra. Ákvæði sem þessi eru til þess fallin að auka traust og trú á íslenskt stjórnkerfi og stjórnsýslu. Markmiðið er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, tryggja óhlutdrægni og traust á stjórnsýslu og ráðamenn og forðast að tengsl og trúnaðarupplýsingar séu nýttar í þágu erlendra aðila.
Það er gríðarlega mikilvægt að embættisfærslur í tengslum við viðræður við erlenda aðila séu hafnar yfir allan vafa og hugsanlegar framtíðarstöðuveitingar geti til að mynda ekki haft þar áhrif. Frumvarpið er þannig lagt fram í samhengi við alþjóðlega umræðu um siðferði og hagsmunaárekstra í stjórnmálum. Fyrrverandi ráðamenn vestrænna ríkja hafa sætt gagnrýni vegna persónulegra ákvarðana eftir að hafa látið af embætti og er Schröder, fv. kanslari Þýskalands, nærtækt dæmi, en engan veginn einstakt.
Mikilvægir hagsmunir, m.a. grundvallaratvinnuvegir, og möguleg eftirgjöf stórfelldra hagsmuna eru t.a.m. andlag viðræðna um inngöngu í ESB. Okkur þykir eðlilegt að skerpt sé á reglum um starfsval að loknum opinberum skyldustörfum. Það sé til þess fallið að auka traust, hlutleysi og geri skýran greinarmun á eiginhagsmunum og hagsmunum þjóðarinnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. nóvember 2025.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

